Um mig
Af hverju ég byrjaði að blogga
Það er einn af þessum fallegu haustdögum, sól en svolítið svalt. Ég er á leiðinni í smábátahöfninni á bak við Hörpu, þar sem, Júlía Anna, 34 feta seglskútan sem við hjónin eigum liggur á sumrin. Við erum að fara að sigla henni í Gufunes, þar sem hún og systur hennar í Sigligaklúbbnum Brokey, eru hýfðar á land og geymdar yfir veturinn. Ég hugsa til ævintýranna sem við erum búnar að upplifa saman í sumar, sum hafa verið ljúf og notaleg, önnur hafa reynt meira á, en aldrei leiðinlegt. Ég hugsa líka til hestanna minna, en hestamennskan er eitt af mínum aðaláhugamálum, sem eru núna komnir í haga hjá vinum okkar á Bitru. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim, þeir eru í góðu yfirlæti hjá sómahjónunum á Bitru, stelpurnar mínar orðnar stórar og hugsa að mestu um sig sjálfar, þannig að.....? Hvað geri ég þá núna? Hvernig væri að láta gamlan draum rætast, og fara að sinna gamalli ástríðu sem hefur alltaf verið með mér á fullorðinsárunum, mat og öllu sem honum viðkemur, auðvitað... :-)