Pönnsu bögglar með hakki

Það sem til þarf er:

f. 5-6

1 pakkning tilbúnar pönnukökur frá Myllunni (ég held að þær séu því miður ekki til lengur)

Fylling:

5 sólþurrkaðir tómatar + svolítil olía af tómötunum

1/2 kg. nauthakk

Oregano

Paprikuduft

1 rautt chili, fínsaxað (ég saxaði fræ og himnur með)

1 hvítlauksrif, marið

4 msk. chili tómatsósa frá Heinz

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

2 tómatar, í sneiðum

100 gr. rifinn ostur

100 gr. rjómaostur

Meðlæti:

Salat að eigin vali

10% sýrður rjómi

Heinz chilisósa

Góður hakkréttur er gulls ígildi :-) Vaka-Helgafell gaf út fyrir mörgum árum "Nýir eftirlætisréttir", sem margir kannast við. Þessi uppskrift er byggð á uppskrift sem er að finna þar. Ég er búin að breyta henni aðeins, svo hann falli betur að mínum smekk.

Svona gerði ég:

Ofninn hitaður í 200°C. Hakkið er þurrsteikt á pönnu og mestu af fitunni hellt af. Tómötum, olíu, oregano, papriku, chili (ef þú vilt ekki sterkt skaltu ekki hafa fræin með), hvítlauk og sósu er hellt á pönnuna með hakkinu og mallað saman í smástund. Saltað, piprað og smakkað til með meira kryddi ef þú vilt. Pönnukökunum er pakkað í smjörpappír (geyma pappírinn til að klæða eldfasta fatið með) og þær hitaðar í nokkrar mínðútur til að mýkja þær aðeins. Þá eru bögglarnir útbúnir með því að setja eina tómatsneið í miðjuna á hverri köku ásamt smá hrúgu af rifnum osti, klípu af rjómaosti og síðast hakkið. Pönnukökunni er svo pakkað í ferkantaðan böggul utanum allt saman. Bögglunum er raðað í eldfast fat og bakaðir í 10-15 mín. Bornir fram með góðu salati, 10% sýrðum rjóma og Heinz chili sósu. Bögglarnir geymast vel frosnir.

Verði þér að góðu :-)

P.s. Ef þú vilt baka þínar eigin pönnsur, Þá er uppskriftin hér:

3 egg, 300 gr. hveiti, 3 - 3 1/2 dl mjólk, 1 dl vatn, 50 gr. smjör. Þeyta eggin, bætið mjólk og vatni samanvið í skömmtum. Bræðið sjörið og hrærið útí. Degið látið standa í smástund. Ca. 16-20 stk. þunnar pönnsur


Hversdags gott :-)