Börkur með Turkish pipar og ristuðum möndlum

Það sem til þarf er:

300 gr. dökkir súkkulaði hnappar

1/2 - 1 poki Tyrkisk peber brjóstsykur

50 gr. ristaðar möndlur, saxaðar miðlungs gróft

50 gr. hvítir súkkulaðihnappar, gróft saxaðir

Nammi... Ég geri stundum súkkulaðibörk fyrir jólin, sem ég annaðhvort gef, eða borða bara sjálf (ég gef GM stundum með mér :-D). Oftast hef ég gert börk með piparmyntu brjóstsykri, en núna hefur löngunin í eitthvað nýtt, grafið um sig hjá mér. Pipar brjóstsykur er rosagóður, sérstaklega með súkkulaði, möndlum og smá mjúku hvítu súkkulaði. Stundum bræði ég hvítasúkkulaðið og létt blanda því við það dökka, eða ég bara saxa það og set það ofan á, það er ekkert heilagt í þessum efnum. Endilega splæstu á þig smá súkkulaði með krönsí pipar brjóstssykri og hnetum :-)

Svona geri ég:

Möndlurnar eru létt ristaðar á pönnu. Teknar af hitanum og látnar kólna á eldhúspappír. Dökka súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Stór örk af bökunarpappír er sett á bakka eða ofnplötu. Þegar súkkulaðið er bráðið, er því hellt á pappírinn og svo er því smurt yfir hann með flötum spaða, svo það verði ca. 1/2 cm á þykkt. Hér getur þú ákveðið hvort þú vilt blanda hvíta súkkulaðinu við það dökka, þá bræðir þú það yfir vatnsbaði og drussar því yfir eða með skeið og blandar því mjög létt saman, með skaptinu á skeiðinni, eða saxa það og setja það ofan á í litlum btum. Brjóstsykurinn er brotinn gróft með kökukefli eða buffhamri og dreift yfir súkkulaðið meðan það er enn lint og þrýst létt ofan á hann, svo hann festist í súkkulaðinu. Möndlurnar eru saxaðar miðlungs gróft og dreift yfir á sama hátt, ásamt hvítu súkkulaði hnöppunum. Í lokin er nokkrum kornum af grófum salt flögum dreift yfir. Látið kólna og storkna, síðan er það brotið í hæfilega bita og pakkað fallega inn eða sett í skál og notið.

Verði þér að góðu :-)

Nammi fyrir okkur 😉🍫