Bóndadags kótilettur

Það er ekkert sérstakt magn, heldur eins margar lamba kótilettur og Bóndann þinn langar í:

1-2 egg

Paxo rasp

Salt og pipar

Smjör til að steikja upp úr og hafa með, mikið af því, ekki spara það

Meðlæti:

Ora grænar baunir

Rauðkál

Íslensk rabarbarasulta, frá Mömmu

Fallegar íslenskar kartöflur, soðnar og skrældar

Ég veit ekki hvað gleður þinn bónda á Bóndadaginn kæra vinkona, en minn, eru það gamaldags barðar kótilettur í raspi (Paxo, ekki þetta fína heimagerða), með Ora grænum baunum, soðnum kartöflum, rabarbarasultu frá Mömmu, rauðkáli og miklu bræddu smjöri, létt brúnuðu... ;-)  Hann er nefnilega "Bolur inn við bein, og er stoltur af því...." Það þýðir ekki að bjóða þessari elsku Sushi eða eitthvað nútímalegt og fancý á deginum HANS, nei takk.  Og þar sem dagurinn snýst um að gleðja hann, er ekki nema sjálfsagt að verða við því.  Hefðin hjá okkur hjónunum byrjaði í matarboði sem góð vinkona hélt fyrir hestahópinn okkar fyrir nokkrum árum.  Hún er mikill matgæðingur og eldar allavega mat, en þessi gamli góði er hennar specilaity.  Hún bauð upp á gamaldags kótilettur og ég hef aldrei setið við matarborð þar sem önnur eins unaðs hljóð komu frá gestunum, sérstaklega körlunum svo mikil var gleðin og ánægjan (reyndar hjá okkur konunum líka).  Svo fóru þeir að spyrja okkur elskurnar sínar "Af hverju þeir fengu aldrei svona mat heima???  Mitt svar við því er, á Bóndadaginn elskan :-) 

Svona gerði ég:

Ofninn er hitaður í 180°C.  Gamli buffhamarinn hennar Önnu Kidda, ömmu, kemur sterkur inn þegar þarf að berja kótiletturnar þunnar.  Eggin eru létt þeytt í víðri skál og góð hrúga af raspi sett á flatan disk.  Síðan er kótilettunum velt upp úr léttþeyttum eggjunum og að lokum þrýst þétt ofan í Paxo rasp til að passa að hver kótiletta sé vel þakin raspi. Stór klípa af smjöri er brædd á miðlungshita á rúmgóðri pönnu og kótiletturnar steiktar í smjörinu, á báðum hliðum í nokkrar mínútur.  Kryddaðar með salti og pipar og steiktar þar til þær eru orðnar gylltar á litinn og stökkar að utan.  Þær sem eru tilbúnar eru settar á ofnplötu og henni stungið í ofninn á meðan þú bætir smjöri á pönnuna eftir þörfum og steikir restina.  Ágætt að hafa þær í ofninum í ca. 10-12 mín. í allt. Kartöflurnar eru soðnar og skrældar, baunirnar og rauðkálið hitað. Þegar allar kótiletturnar eru steiktar, er stórum bita af smjöri bætt á pönnuna og það brætt og látið brúnast pínulítið, síðan er því hellt í sósukönnu og borið á borð með öllum herlegheitunum og einum ísköldum  að hans vali

Verði honum að góðu :-)

"Bolur inn við bein, og er stoltur af því....."