Rabarbara snittur

Það sem til þarf er:

F. 6

Í deigið:

200 gr. ósalt smjör, skorið í litla kubba, mjög kalt

250 gr. hveiti + auka til að rúlla út með

125 ml. ískalt vatn

Í fyllinguna:

Safi úr einni appelsínu

1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr

80 gr. hrásykur + auka til að strá yfir kökur

1/2 kg. rabarbari, stönglarnir skornir í 10 cm lengjur

1 egg létt þeytt

Borið fram með:

Vanillu ís eða þeyttum rjóma

Ég elska rabarbara. Það eru ekki margar ávaxta uppskerur sem maður getur sótt í garðinn hjá sér, en eitt það fyrsta sem garðurinn gefur af sér, er rabarbarinn. Sultan og saftin eru frábær, svo eru það allskonar bökur, pæ og grautur. Í þessari uppskrift er það heimagert smjördeig sem er í botninum. Þetta er ísfyrsta sinn sem ég geri smjördeig sjálf og ótrúlegt en satt, fannst mér mjög gaman að búa það til.. Ég hafði alltaf verið viss um að það væri svo erfitt og tímafrekt, en í raun er það ekki. Ekki láta það draga úr þér, sláðu til og skelltu saman einu deigi, þú verður sjúklega glöð með þig, þegar þú bítur í snittuna og finnur hvað deigið er létt og í fallegum flögum :-)

Svona geri ég:

Rabarbarinn: Rabarbarinn er þveginn vel og skorinn í 10 cm lengjur. Appelsínusafi og vanillustöngin, ásamt fræunum úr stönginni, eru sett í víðan pott eða pönnu, á miðlungs hita. Suðan látin koma upp og þá er rabarbarastöngunum stungið ofan í og látnar malla í ca. 4 mín., tekið af hitanum og kælt. Þegar snittan er sett saman, er rabarbarinn tekinn upp úr og sírópið geymt til að bera fram með snittunni.

Deigið: Hveiti og smjörbitum er velt létt saman í stórri skál. Laut er gerð í botninum á skálinni og vatninu hellt í hana. Hnífur er notaður til aðskera hveitið, smjörið og vatnið saman og koma því snögglega saman í deig (smjörið á að vera mjög sjáanlegt í deiginu, sjá mynd). Ef deigið virkar þurrt má bæta 1-2 msk. af vatni til viðbótar. Deigið formað í kubb, sem er sjálfsagt frekar laus í sér, pakkað í plastfilmu og stungið í ísskápinn í 30 mín. Deiginu er rúllað út á hveitistráð borð og rúllað aflangt í 30x15 cm lengju. Styttri endinn er lagður inná miðja lengjuna og svo er hinn endinn lagður ofan á hann, svo það myndast þrjú lög, (sjá mynd). Aftur pakkað í plast og stungið í ísskáp í 30 mín. Þetta er endurtekið, þú byrjar með brotið að þér og rúllar úr og brýtur saman í þrjú skipti í viðbót og kælir deigið í 30 mín. á milli. Ofninn er hitaður í 200°C. Deiginu er rúllað út þar til það er ca. 3 mm þykkt og þá eru skornar út 6, 12 cm. ferningar. Sem eru settir á pappírsklæddar bökunarplötur. Rabarbaranum er dreift á kökurnar, en passa að skilja eftir 1 cm kant. Kanturinn er penslaður með þeyttu eggi og bakað í ofninum i 15 mín., þá er hitinn lækkaður í 180°C og bakað áfram í 10 mín., þar til deigið er gyllt og búið að lyfta sér. Bornar fram með rabarbara sírópinu og ís eða þeyttum rjóma.

Verði þér að góðu :-)

Deigið

Fyllingin

Soldið súr en sjúklega sæt og góð 🧡