Bacon vafinn humar

Það sem til þarf er:

Ég nota 3-4 á mann

Góður skelflettur humar, allavega miðlungsstór

Heilir ananas hringir

Bacon sneiðar

Meðlæti:

Salatlauf, gúrka, tómatar og sítrónubátar

Ristað brauð og smjör

Chantily sósa

Hér er forrétturinn, sem við höfum haft á aðfangadagkvöld í áratugi.  Við elskum hann öll og það er alltaf mikil tilhlökkun að setjast að hátíðarborðinu, fullur árslangrar eftirvæntingar, eftir því að stinga fyrsta bitanum upp í munn.  Sósan með er ómissandi, hún er rjómakennd með súrsætu sítrónubragði og passar fullkomlega með humrinum.  Það má hafa hana með allskonar köldum fisk- eða skelfisk forréttum.  Í mínu húsi eru það forréttindi kokksins (mín), að búa til 1-2 auka, til að eiga og njóta með heitu, nýristuðu brauði með smjöri, á jóladagsmorgun.  Ég er mjög þakklát þeim sem setti þessa reglu (mér).  Það er ekkert mál að gera réttinn, þú getu haft hann tilbúinn fyrr um daginn og svo þegar kemur að því að steika hann, tekur það enga stund.  Ég skora á þig að prófa þennan forrétt ;-)

Svona geri ég:

Humarinn er afþýddur, skelflettur og garndreginn.  Ananassneiðarnar eru skornar í þrjá bita.  Baconið er snyrt með því að skera  ca. 5 cm bita af endanum, nema humarinn sé mjög stór og þykkur.  Ein sneið er lögð á borðið og einn ananasbiti er lagður á annan endann og humarhali á hinn síðan er endunum rúllað saman og rúllan lögð á disk.  haldið áfram á sama hátt þar til allt hráefnið er búið.  Plastfilma er lögð yfir diskinn og honum stungið í ísskápinn þar til á að steikja hann, þá er hann tekinn úr kælinum ca. 1 klst. áður.  Diskarnir sem á að bera humarinn fram á eru gerðir klárir með salatlaufi og sítrónubátum og því grænmeti sem þú vilt.  Humarinn er síðan steiktur á pönnu upp úr smá smjöri þar til hann er ekki lengur glær og baconið er farið að brúnast.  Látið leka vel af þeim síðan raðað á diskana.  Bornir á borð með nýristuðu brauði, Chantilly sósu og góðu glasi af kældu hvítvíni eða Cava.

Verði þér að góðu ;-)

Himneskur 💫🦞