Gæsabringa með gráðostasósu

Það sem til þarf er:

F. 2-3

2 gæsabringur

8 einiber, marin gróft

70 gr. smjör

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Sósan:

1 msk. smjör

140 gr. gráðostur

1 rautt epli

1 stór grein, ferskt rósmarín

Hvítur pipar

1.5 dl rjómi

0.75 gr. vatn

1 1/2 msk. tawny Púrtvín

Meðlæti:

Ferskar perur

Smjör

Síróp

Salt

Súrsætur rauðlaukur

Okkur áskotnuðust gæsabringur frá einum aftengdasonunum. Okkur GM finnast gæsabringur geggjaðar, hér eru þær með gráðostasósu, sem fer mjög vel með villta bragðinu af gæsinni. Mér finnst nauðsynlegt að vera með eitthvað sætt með líka, til að fá jafnvægi i réttinn, svo ég smjör- og síróps steikti perur með þeim og bætti súrsætum rauðlauk við. Samsetningin var æði, ekki flókið mál. Endilega prófaðu :-)

Svona gerði ég:

Sósan: Laukurinn er smátt skorinn og eplið í meðalstóra bita. Smjörið er brætt á pönnu og rósmarín greinin er látið malla í smjörinu í smástund, síðan er lauk og epli bætt á pönnuna og steikt, þar til laukurinn er farinn að verða glær og meyr. Þá er Púrtvíninu bætt út i og látið sjóða niður. Rjóma, vatni og gráðosti er bætt á pönnuna og látið malla á lágum hita þar til osturinn er bráðinn, kryddað til með púrtvíni, pipar og salti ef þarf. Sósunni er hellt í gegnum sigti, í hreinan pott og haldið heitri þar til á að nota hana.

Gæsin: Ofninn er hitaður í 100°C. Bringurnar eru saltaðar og pipraðar. Smjörið er brætt á pönnu og einiberin látin malla á henni í 1-2 mín. Hitinn er hækkaður á pönnunni og bringurnar steiktar í 2-3 mín. á hvorri hlið. Smjörinu er ausið yfir bringurnar á meðan þú steikir þær. Teknar af pönnunni og settar á ofnplötu og smjörinu hellt yfir þær, settar í ofninn í 20 mín., þá eru þær teknar út og álpappír setur yfir þær og þær látnar hvílast í 10 mín. áður en þær eru skornar í sneiðar og bornar á borð.

Perur: Perurnar eru þvegnar, kjarnhreinsaðar og skornar í sneiðar. Smjör er brætt á pönnu og þær steiktar þar til þær eru byrjaðar að taka lit og brúnast aðeins. Þá er sírópi hellt yfir þær og þær látnar steikjast um stund í sírópinu, saltaðar smávegis.

Verði þér að góðu :-)

Gráðostasósan

Gæsin

Dýrðlegur matur 🪶💫