Áramót 2016

Það sem til þarf er:

F. 8

Í botninn:

100 gr. mjúkt smjör

100 gr. sykur

2 stór egg, þeytt

1/2 tsk . lyftiduft

125 gr. hveiti

55 gr. malaðar heslihnetur

Í hvítsúkkulaði-eggjakremið:

7  1/2 dl mjólk

1 vanillustöng, klofin eftir endilöngu 

8 eggjarauður

100 gr. sykur

3 msk. maísmjöl

150 gr. gott hvítt súkkulaði, saxað (ég nota frá Green & Black)

Í granatepla- og hindberja sósuna:

1 granatepli

250 gr. frosin hindber, afþýdd

2 msk.flórsykur

Sykraðar heslihnetur:

40 heslihnetur

300 gr. sykur

1 dl vatn

40 bambus grillpinnar

Toppur g skraut:

3 dl rjómi, þeyttur

Nokkrir granatepla kjarnar

Við fjöslyldan setjumst niður með eftirréttinn þegar Áramótaskaupið byrjar.  Tilbúin með kaffi líkjör, jólakonfetkt og allskonar góðgæti til að gúffa í okkur á meðan farið er yfir árið og skellihlegið.  Allir hafa sína skoðun á hvernig Skaupið var og það er gaman að hafa vítt aldursbil í hópnum, svo það eru margar skoðanir í gangi, stundum eru allir sammála.  Mér finnst mjög gaman að koma fólkinu mínu á óvart, þegar ég ber eftirréttinn á borð.  Ég er mjög vanaföst a Jólunum en á Gamlárskvöld, er öllum vana hent út um gluggann og allt er falt.  Ég geri aldrei  sama matinn eða desertinn tvö ár í röð.  Ég lít á hátíðina sem tækifæri til að skemmta mér í eldhúsinu og búa til eitthvað sem er svolítil áskorun og áhugavert. Best er ef hægt er að búa hann til að mestu daginn áður.  Eftirrétturinn á Gamlárskvöld er hápunktur matarásins, hann verður að vera "showstopper" að mínu mati, bæði útlitslega og í munni.  Þetta var " showstopperinn" 2016.

Svona gerði ég:

Ofninn er hitaður í 190°C.  22cm hringlaga form er smurt að innan og bökunarpappír settur í botninn á því.  Allt hráefni i botninn er sett í matvinnsluvél og blandað vel saman.  Deiginu er helli í formið og sléttað úr því.  Forminu er stungið i ofninn og bakað í 20-25 mín., þar til botninn er hefaður og gylltur.  Formið tekið úr ofninum og látið standa á borði í 5 mín., þá er botninn tekinn úr  því og hann látinn kólna alveg á grind. 

Sykraðar heslihnetur:  Einum grillpinna er stungið í hverja hnetu.  Búa þarf til statíf til að láta pinnana hanga á, á meðan sykurinn harðnar (sjá mynd). Nauðsynlegt er að hafa bökunarpappír undir.  Sykur og vatn er sett í þykkbotna pott og hitað rólega þar til sykurinn er alveg bráðnaður.  Suðan látin koma upp án þess að hræra í, í 3-4 mín., þar til sírópið er farið að taka lit og orðið rafgyllt. Tekið af hitanum og látið þykkna í um 1 mín.  Hnetunum er stungið, einni í einu í karamelluna, svo þær þekist og fái "hala".  Þá eru pinnarnir hengdar á statífið og látnar harðna alveg.  Ef karamellan í pottinum harðnar áður en þú nærð að klára, er hún hituð aðeins upp.  Þetta er hægt að gera nokkrum dögum fyrr og geymt á bakka með plasti yfir, þar til á að nota þær.

Hvítsúkkulaði eggjakremið:   Mjólkin og vanillustöngin er hituð að suðu.  Potturinn tekinn af hitanum og mjólkin látin standa og trekkja í 20 mín.  Þá er vanillustöngin tekin úr mjólkinni og henni hent.  Eggjarauður, sykur og maismjöl er þeytt saman í skál, þar til það er létt og ljóst.  Hellt út í mjólkina og þeytt stöðugt í á meðan.  Potturinn er settur aftur á hitann og látið sjóða mjög rólega, þar til  eggjarjóminn þykknar, þeytt í stöðugt á meðan.  Soðið áfram í ca. 1 mín.  Þá er súkklaðinu hrært útí þar til það bráðnar.  Látið kólna alveg, platfilma sett ofaná yfirborðið og geymt í ísskáp.

Granatepla- og hindberja sósan:  Hindberin eru hituð í potti þar til þau fara að losa um safann, þá er potturinn tekinn af hitanum.  Fræin úr granateplunum eru tekin úr hýðinu yfir skál svo safinn fari í skálina (gott að vera með hanska, þau lita), nokkur tekin frá til að skreyta með.  Safinn úr hindberjunum er settur í skálina með granatepla fræunum.  Flórsykrinum er blandað útí safann og fræin, sett í pott og látið malla rólega í 2-3 mín., þar til sósan þykknar.  Tekið af hitanum og látið kólna. Hindberjunum blandað útí.

Sett saman:  Kakan er skorin í litla bita og skipt á milli 8 skála.  Granatepla- og hindberja sósunni er skipt á milli skálanna, en 2-3 msk., eru teknar frá til að skreyta með.  Hvítsúkkulaði-eggjarjóminn er settur yfir og plast yfir skálarnar og þær geymdar í ísskáp yfir nótt.  Þegar á að bera trifflið á borð er rjóminn þeyttur mjúklega og skipt á milli skálanna.  Smá sósu er dreypt yfir og  ásamt nokkrum granateplafræum og 5 sykruðum heslihnetum.

Verði þér að góðu :-D

Gleðilegt ár 🌟