Bacon & egg pæ

Það sem til þarf er:

F. 8

Í botninn:

2 1/2 bolli hveiti

3/4 tsk. sjávarsalt

230 gr. kalt smjör skorið í bita

Í fyllinguna:

180 gr. eldað bacon í bitum

2 vorlaukar, í þunnum sneiðum

9 stór egg

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

6 msk. rjómi

1 1/2 msk. Shriracha

1 1/2 msk, tómatsósa

Bacon og egg pæ, bara nafnið gerir mig svanga. Ég gerði þetta pæ þegar stelpurnar okkar GM og þeirra fylgifiskar komu í brunch í kringum páskana í vor. Ég var svo ljónheppin að fá góða hjálp frá elsta dóttursyni mínum, Andra Hrafnari, sem er mjög liðtækur í eldhúsinu, hefur gaman af eldamennsku og er alltaf til í að hjálpa ömmu sinni. Það sem ég elska við þetta pæ, er að það er hægt að klára það 80% daginn áður, en ganga svo frá því daginn sem þú notar það. Deigið er auðvelt að búa til og þægilegt í meðförum, það geymist í ísskáp í viku. Fallegt og frábært á brunch boðið eða sem léttur lunch fyrir vinkonurnar, þá kannski með grænu salati. Sláðu til og prófaðu :-)

Svona geri ég:

Deigið: Ofninn er hitaður í 190°C. Smjörið, hveitið og saltið er sett í stóra skál og nuddað saman á milli fingra, þar til það er eins og mjög gróf mylsna. Eða þú getur líka allt í matvinnsluvél og púlsað það. 1 msk. af ísköldu vatni er blandað í deigið í einu (4-8 msk. í allt) þar til deigið loðir vel saman. Ekki vinna deigið of mikið, passaðu að hafa smjör fliksur í því, deiginu er skipt í tvo hluta og pakkað í plast. Þú getur búið deigið til viku áður en á að nota það og geymt það í ísskáp, en allavega í 1 klst. í frysti áður en þú notar það.

Hveiti er stráð á borðið og deigið flatt út í 30 cm hring. 23 cm smurt lausbotna bökuform, er klætt að innan með deiginu, gott að passa að láta deigið ná alveg upp á kantinn og reyna að festa hann þar, með því að bretta kantinn aðeins yfir brúnina. Deigið er pikkað með gaffli og klætt að innan með hringlaga bökunarpappír. Keramik bökunar baunir eða þurr hrísgrjón eru sett í botninn ofan á pappírinn, bakað í 10 mín., þá er pappírinn og grjónin tekin í burtu og bakað áfram í 10 mín., þar til botninn er þurr og gylltur. Hitinn er hækkaður í 200 °C.

Fyllingin: Helmingnum af baconinu og vorlauknum er dreift yfir botninn. 8 egg er brotin varlega jafnt yfir botninn, saltað og piprað yfir. Rjómanum, Shriracha- og tómatsósunni er hrært saman í lítilli skál. Sósunni er drippað yfir fyllinguna með teskeið, inná milli eggjanna. Restinni af baconinu og vorlauknum er dreift ofan á.

Hinum helmingnum af deiginu er rúllað út í rúmlega 30 cm hring sem er ca. 1/2 cm á þykkt. Deigið er lagt varlega ofan á bökuna og köntunum þrýst varlega saman, efst inn í hliðarnar á bökuforminu. 1 egg og 1 msk. af vatn er þeytt saman í skál með gaffli og eggjahrærunni penslað ofan á bökuna. 4 grunnir skurðir eru skornir varlega í lokið svo gufan komist út (ekki stinga í eggjarauðurnar). Bakað í 25-30 mín., þar til deigið er gyllt. Tekið úr ofninum og látið bíða í allavega 20 mín. áður en þú berð það á borð.

Verði þér að góðu :-)

P.s. Ef þú ætlar að hálfklára bökuna daginn áður en þú nota hana, hættirðu þegar á að setja eggin í fyllinguna. Ef pæið klárast ekki er ekkert mál að frysta afganginn og afþýða hann síðan og hita rólega í ofninum með pappír yfir.

Stjarnan á bröns borðinu 🥚🥓🥧