Rifjasteik með Sherrýsósu og kryddjurta salsa
Það sem til þarf er:
F. 6-8
2 kg. svína rifjasteik með beini
3 laukar, í sneiðum
3 sóló hvítlaukar, eða 3-4 væn hvítlauksrif
1/2 dl þurrt Sherrý + svolítið auka til að setja í sósuna
7.5 dl kjúklingasoð
2 msk. fennel fræ
2 msk. gróft sjávarsalt
Í kryddjurta salsað:
1/2 rauðlaukur í þunnum sneiðum
3 msk. sherrý edik
1 msk. sykur
20 gr. af fersk mynta, laufin plokkuð af
20 gr. ferskur kóríander, saxaður fínt
Meðlæti:
Þessa áttu eftir að elska og slá i gegn með hjá þínum. Laaaaang flestu þykir purusteik góð, meira að segja mjög góð. Þessi er ekki eins og þessi hefðbundna, hún er með kryddjurta salsa, sem sýrður rauðlaukur er í og dýrðleg sósa, bragðbætt með þurru Sherrýi og hvítlauksmús, dásamlegt ekki satt. Einfalt og æðislegt með nýju tvisti. Endilega prófaðu ;-)
Svona geri ég:
Steikin: Ofninn er hitaður upp í 240°C. Steikin er þerruð vel og raufar eru skornar í puruna á steininni, með beittum hníf (mér finnst gott að nota hreinan dúkahníf). Fennel fræunum og salti er nuddað vel í puruna. Laukurinn er skorinn í sneiðar og hvítlaukurinn saxaður fínt, blandað saman í rúmgóðu steikarfati. Steikin er lögð ofan á laukinn og Sherrýinu og kjúklingasoðinu hellt í fatið án þess að hella yfir steikina. Steikin er sett í ofninn og steikt í 20 mín., þangað til húðin er byrjuð að bólgna upp, þá er hitinn lækkaður í 140°C og steikt áfram í 5 tíma. Allt úr ofnskúffunni er hellt í pott. Ofninn er hitaður aftur í 240°C og þegar ofninn er tilbúinn er steikinni stungið inn í 35 mín. Best er að athuga hvernig gengur í ofninum eftir ca. 20 mín., því fennel fræin geta brunnið ef svo er eru þau burstuð af og steikt áfram. Steikin er tekin úr ofninum og sett á fat og látin standa í 20 mín., því soði sem lekur af er hellt í sósuna. Síðan er steikin skorin.
Sósan: Soðið og laukurinn úr steikarfatinu er láið sjóða í pottinum í um 20-25 mín., þar til soðið er orðið þykkt, þá er Sherrýinu bætt út í og smakkað til með salti og pipar.
Kryddjurta salsað: Rauðlaukurinn er skorinn í þunnar sneiðar og settur í litla skál, ásamt edikinu og sykri og látið standa í 1-2 tíma. Þegar þú ert tilbúin að bera á borð er kryddjurtunum bætt út í og öllu blandað vel saman.
Borið á borð með sósu, kryddjurtasalsa og hvítlauksmúsinni með ristuðum hvítlauk.