Fyllt brauð

Það sem til þarf er:

F. 4

1 brauð með sólþurrkuðum tómötum

2 msk. smjör, brætt

1 laukur, saxaður

150 gr. bacon, steikt

1 vel þroskaðir tómatar, saxaðir

2 egg, þeytt

2 dl rjómi

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Nokkur fersk basillauf, söxuð

Ég elska að kíkja í gömlu uppskrifabækurnar hennar mömmu, ég á nokkrar og slatta af "vélrituðum" blöðum með allskonar uppskriftum á.  Það er tíska í mat og matarstemmingu  eins og öllu öðru, sumt er bara klassík eins og blái Blazerinn, með gylltu hnöppunum, stenst allar tískubylgjur.  Sumar uppskriftirnar hafa einfaldlega gleymst og svo eru aðrar sem hafa ekki staðist tímanns tönn og fara í glatkistuna.  En, það eru nokkrar sem ferðast vel fram í tímann og með smá tjútti eru þær frábærar akkúrat í dag, þetta er ein þeirra.  Geggjað fyllt brauð me með baconi, tómötum, basil og lauk, bleytt upp með eggjarjóma og svo bakað gyllt og djúsí.  Ég á bar eitt orð "jummý"!!  

Svona gerði ég:

Ofninn er hitaður í 200°C.  Baconið er steikt í ofni eða á pönnu , kælt og skorið í bita.  Laukurinn er saxaður og steiktur meyr í smá smjöri og salti á pönnu og tómatarnir eru saxaðir. Lok er skorið ofan af brauðinu eftir lengdinni, og það er geymt.  Brauðið er holað að innan, smjörið er brætt í potti og brauðið er smurt að innan með smjörinu.  Álpappírsörk og jafnstór smjörpappírsörk eru lagðar saman og brauðið er sett ofan á.  Laukurinn er lagður í botninn, síðan baconið og svo tómatarnir.  Eggin eru þeytt með rjómanum, smakkað til með salti og pipar.  Rjómablöndunni er hellt varlega yfir fyllinguna, það er gott að ýta henni aðeins til með gaffli svo hún komist vel á inn á milli laganna.  Basillaufin eru söxuð og sett yfir tómatana. Brauðlokið er sett a sinn stað og brauðinu pakkað inn í álpappírinn og pakkanum stungið í ofninn í 30-40 mín., þar til brauðið er gegn heitt og eggjamassinn bakaður.  Sett á aflangan disk og borið heitt á borð.  

Verði þér að góðu :-) 

Old school 🥖