Trés leches kaka

Það sem til þarf er:

F. 8

Í botninn:

3 stór egg, aðskilin

1/2 bolli sykur

3 msk. mjólk

1 tsk. vanilludropar

1/2 bolli hveiti

1/8 tsk. salt

í þriggja mjólkur blönduna:

2 dl Sweet condensed milk í dós, fæst í flestum búðum

1.25 dl Evaporated milk í dós, ef hún er til, annars Matreiðslurjómi

1.25 dl rjómi

Toppurinn:

2.5 dl rjómi

1 1/2 msk. flórsykur

Kanill

Rauð kokteilber, með stilk

Hér er á ferðinni ein frægasta terta Suður Ameríku, Torta De Trés leches, eða þriggja mjólkur kaka. Hvort hún sé upprunalega frá Suður Ameríku og þá hvaða landi þaðan, eru menn alls ekki sammála um. Sumir segja að hún komi frá Mexíkó, aðrir Nicaragua sumir segja Brasilíu, hver veit? En, svo eru aðrir sem segja að upprunalega uppskriftin sé af triffliköku frá Englandi, sem fór á flakk og þróaðist í þetta afbrigði í Suður Ameríku á ferðum sínum þar, eftir seinni heimsstyrjöld, en þar er kakan á borðum til hátíðarbrigða. Anyhoo, hún er dýrðleg, fislétt vanillukaka, sem er gegnbleytt með sætri mjólkur/rjóma blöndu, toppuð með þeyttum sætum þeyttum rjóma, smá kanil og kokteilberjum á toppnum. Hún er eins og ég sagði áðan dýrðleg og þú þarft að smakka hana.

Svona geri ég:

Botninn: Ofninn er hitaður í 180°C. 21x25 cm., form sem er klætt að innan með álpappír og smurt með olíu og hveitistráð. Ef þú átt eldfast fat, sem er í svipaðri stærð, er upplagt að nota það, þá þarf bara að smyrja það og hveitistrá. Eggin eru aðskilin, eggjarauðurnar settar í hrærivélaskál og spaðinn settur á hrærivélina. Fjórðungi af sykrinum er hellt út í eggjarauðurnar og þeytt saman á háum hraða í ca. 3-4 mín. Stoppað á milli og skafið niður með skálinni með sleikju. Mjólkinni, vanilludropum, hveiti, salti og lyftdufti er hrært varlega út í, á lágum hraða, passa að hræra ekki of mikið svo kakan verð ekki þung, sett til hliðar. Eggjahvíturnar eru settar í hreina skál og þeyttar á háum hraða, þar til þær halda léttum toppum. Restinni af sykrinum er hellt út í hvíturnar og þeytt áfram á háum hraða þar til stífir toppar haldast uppi. Þeyttu eggjahvítunum er blandað varlega út í deigið með sleikju, síðan er deiginu hellt í formið og sléttað yfir. Bakað í 33-35 mín., þar til kakan er mjúk, en stinn í miðjunni, eða að prjónn komi hreinn upp þegar stungið er í botninn, tekin úr ofninum og kæld á grind í forminu. Allur botninn er pikkaður með gaffli, síðan er mjólkurblöndunni hellt varlega yfir. Þú gætir þurft að gera það í tvennu eða þrennu lagi, á meðan botninn drekkur í sig mjólkurblönduna. Plastfilma er sett yfir botninn og forminu stungið í ísskáp og geymt til næsta dags, þá er mjólkurblandan búin að bleyta botninn vel í gegn. Botninn er tekinn varlega úr forminu og settur á fallegan disk. Það er lítið mál að rífa pappírinn undan botninum. Ef þú bakaðir hana í eldföstu formi, sleppirðu því auðvitað.

Þriggja mjólkur blandan: Þeytt saman í skál.

Toppurinn: : Rjóminn er þeyttur með flórsykrinum og svo er honum smurt, í þykku lagi ofan á botninn. Smávegis af kanil er drussað yfir rjómann og síðast er kokteilberjum raðað í huggulegar raðir ofan á hann, helst þannig að eitt ber lendi ofan á hverjum bita. ATH: Kakan geymist skreytt í kæli í 2-3 daga, hún verður þá aðeins blautari, en það er ekkert verra.

Verði þér að góðu :-)

Kakan

Þriggja mjólkur blandan

Samsetningin

Þessi sko.... 🍒