Andaconfit, vöfflur og kryddsíróp

Það sem til þarf er:

F. 4

Saltpækill:

90. gr. gróft sjávarsalt

90 gr. sykur

1/2 tsk. appelsínubörkur, fín rifinn

Kanill a hnífsoddi

1 negulnagli

1/2 anís stjarna

3 bleik piparkorn

2 msk. Brandy  eða Koníak

Andaconfit:

4 andalæri og leggur, afþýdd

500 gr. andafita í krukku, stofuheit

Olía og smjör til að steikja upp úr

Í vöfflurnar:

180 gr. hveiti

2 tsk. sykur

1 tsk. lyftiduft

1/2 tsk. matarsódi

Salt á hnífsoddi

180. gr. súrmjólk eða AB-mjólk

35 gr. smjör, brætt

1 lítið egg

Súrdeigsvöffllur - Súrmjólkur brunch vöfflur

Í kryddsírópið:

2 dl hlynsíróp

25 gr. gul sinnepsfræ

1 tsk. sinnepsduft

1 kanilstöng

1 grein ferskt timían

Meðlæti:

4 egg

Önd og vöfflur hljómar dásamlega, ekki satt?.   Þú þarft ekki að fara á veitingastað til að gera vel við þig, þegar þig langar í svona nammi. Andaconfit er lúxus matur sem er lítið mál að búa til sjálfur.  Andalæri eru til frosin í flestum búðum og heimagert confit er svo miklu betra en það sem þú kaupir i dós, þó það ágætt.  Þetta er margreynd uppáhalds uppskrift hjá familíunni.  Venjulega bý ég til súrdeigsvöfflur til að hafa með öndinni, mér finnst upplagt að nota afkastið af súrdeginu, þegar ég fóðra gerlana mína, Germund og Þuríði, (karakterar bæði tvö, svo þau verðskulduðu nafn) ;D  En, ég læt tvær uppskriftir, sem kallar ekki á súrdeig fylgja með, báðar frábærar.  Það eina sem þú þarf að hafa í huga, þegar þú ætlar að búa til réttinn, er að skipuleggja tímann vel, en uppskriftin er alls ekki flókin.  Þú þarft að leggja leggina í pækilinn daginn áður, og þá er tilvalið að búa til sírópið og það má líka hræra vöffludeigið og geyma það í ísskápnum.  Samssetningin og allt annað er þetta ekkert mál.  Ég mæli eindregið með að þú prófir þú verður ekki svikin af því.   

Svona geri ég:

Confit:  Daginn áður, er öllu í salt pækilinn er blandað vel saman í lítið fat og andaleggirnir lagði í fatið og kryddsaltinu nuddað vel inn í leggina alstaðar.  Plast lagt yfir fatið og sett í ísskáp yfir nótt.  Daginn eftir er ofninn hitaður í 150°C.  

Daginn eftir:  Leggirnir eru teknir úr pæklinum og allt saltið skafið vel af.  Leggirnir eru lagði í fat sem smellpassar fyrir þá og fitunni  smurt yfir þá, svo þeir séu alveg huldir fitu.  Settir í ofninn og bakaðir í 3 tíma, eða þar til kjötið nánast fellur af beinunum.  Látnir kólna alveg í fitunni.

Kryddsírópið:  Öllu blandað saman í pott og suðan látin koma upp.  Látið kólna í pottinum, svo kryddin nái að smitast í sírópið.  Kanilstöngin og timian  greinin tekin upp úr áður en þú berð sírópið fram í könnu.

Vöfflur:  Hveiti, sykur, lyftiduft og matarsódi er sett í skál.  Súrmjólk, egg og brætt smjör er þeytt saman í aðra skál, síðan er blöndunni hellt út í þurrefnin og hrært vel saman, deigið á að vera dálítið þykkt.  Geymt í ísskáp þar til á að nota það.

Bera fram:  Ofninn er hitaður í 180°C.  Ofnþolin panna er hituð á miðlungshita og leggirnir lagðir  á pönnuna með húðina niður.  Þegar húðin fer að steikjast og verða gyllt er leggjunum snúið og pönnunni stungið í ofninn í 8-10 mín.,  á meðan er vöfflujárnið hitað og plöturnar smurðar að innan með olíu og vöfflurnar steiktar, haldið heitum.  Smjör er brætt á pönnu og eggin steikt að þínum smekk.  Vaffla með andaconfit legg og steiktu eggi ofan á, sett á fjóra diska og sírópið borið fram með.

Verði þér að góðu :-)

Lúxus dekur nammi 🧇