Paprikash

Það sem til þarf er:

F. 2-3

Ca. 1 kg. af kjúklingaleggjum/lærum

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

1 msk. olía

2 msk. smjör

1 stór gulur laukur, saxaður

2-3 sóló hvítlaukar, saxaðir

1 1/2 msk. ungverskt paprikukrydd, sætt eða sterkt (má vera blanda)

1 1/2 msk. hveiti

1 dós marðir tómatar

1/2 bolli kjúklingasoð

Meðlæti:

Sýrður rjómi

Hrísgrjón, pasta eða núðlur

Hér er á ferðinni dásamlega ljúffengur papriku kjúklingur sem lítið er haft fyrir. Það skiptir ekki svo miklu máli hvort þú notar kjúklingaleggi eða læri, en dekkra kjötið á beini passar mjög vel í þennan rétt. Það sem mér finnst skipta máli í þessum rétti, svo hann njóti sín sem best, er að splæsa í nýtt paprikukrydd, það gerir bragðið af réttinum. Ef paprikuduftið í kryddhillunni er orðið svolítið gamalt, er það líklega orðið bragðlítið og ekki spennandi bragð af því, svo það er þess virði að fá sér nýtt. Toppur af sýrðum rjóma setur svo punktinn yfir i-ið. Ef þú vilt meðlæti með er upplagt að hafa pasta, núðlur, hrísgrjón eða annað sem er þægilegt fyrir þig. Endilega prófaðu!

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 200°C. Kjúklingurinn er kryddaður mjög vel með salti og pipar. Olían og smjörið er brætt í stórri ofnþolinni pönnu og lærin brúnuð á háu hita báðum megin, þar til þau eru gyllt og stökk að utan, ca. 5-7 mín. á hvorri hið, tekin af pönnunni og sett á disk. Fitunni er hellt af pönnunni, nema ca. 2 msk. Laukurinn er steiktur í fitunni þar til hann orðinn glær og mjúkur, það er gott að skrapa ofan í botninn á pönnunni svo öll steikarskófin losni upp og samlagist lauknum. Hvítlauknum er bætt út í og steiktur með auknum í smástund. Papriku og hveiti er hrært út í laukinn og látið malla svo hráa bragðið af hveitinu hverfi í ca. 4-5 mín. Tómötunum og soði er bætt á pönnuna og kjúklingalærunum raðað ofan í sósuna, smakkað til og bakað í ofninum í 25-30 mín. Borið fram með sýrðum rjóma og meðlæti að eigin vild.

Verði þér að góðu :-)

Ljúffengt 👌