Gougéres

Það sem til þarf er:

Ca. 30- 40 stk.

1 bolli vatn

4 msk. smjör

1/2 tsk. fínt salt

1/8 tsk. cayanne pipar

140 gr. brauð hveiti

4 stór egg, við stofuhita

140. gr. rifinn Gruyére ostur eða Tindur

50 gr. fín rifinn Parmesan ostur

Ég held ég hafi borðað næstum því allt sem var á plötunni.......eigum við að ræða græðgina eitthvað?  Nei, alls ekki...  Gougéres eru sjúklega góðar litlar franskara vatnsdeigsbollur með osti og smá dass af cayanne pipar. Frábærar með  glasi af köldu freyðivíni eða kampavíni, ef þú ert að dekra við þig og þína.  Auðveldar að búa þær til og hægt að frysta þær óbakaðar og eiga tilbúnar þegar þú þarft á að halda, en þær eru bestar nýkomnar úr ofninum.  Hver sagði partý?

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 220 °C.  Osturinn er rifinn og bökunarpappír settur á 2 bökunarplötur.  Vatn, smjör, cayenne pipar og salt er sett í pott og suðan látin koma upp.  Hveitinu er öllu hellt útí pottinn í einu og hrært duglega saman með trésleif þar til deigið losnar vel frá pottbrúninni, tekur 1-2 mín.  Deigið er sett í hrærivélarskál og hrært með spaðanum í smástund svo deigið kólni aðeins. Eggjunum er bætt útí einu í einu og hrært vel í á milli svo þau blandist vel í deigið.  Gruyére ostinum (eða Tindi) er blandað útí og hrært í deiginu þar til osturinn er að mestu bráðinn í deigið.  Deigið er sett í stóran sprautupoka, klippt ca. 1 cm gat á totuna á honum og deigkúlu sem er ca. eins og valhneta á stærð sprautað með smá millibili á plötuna.  Parmesan osti er dreift ofaná toppana og jafnvel smá cayenne pipar. bakað í 15 mín., þá er hitinn lækkaður í 180°C og bakað áfram í 10-15 mín.  Platan tekin úr ofninum, kælt í augnabil.  Raðað á disk og boðrið fram.  

P.s.:  Það er hægt ð geyma deigið tilbúið í sprautupokanum yfir nótt og baka að daginn eftir.  Það má líka lausfrysta deigið, þegar búið er að móta það í litlar kúlur.  Þær eru bakaðar beint úr frystinum, en þá þarf að bæta nokkrum mínútum við bökunartímann.

Verði þér að góðu :-)

Délicieux 😘