Fylltar bakaðar kartöflur og steiktur framhryggur

Það sem til þarf er:

F. 4

2 stórar bakaðar kartöflur

Í fyllinguna:

2 msk. smjör, mjúkt

1/2 dós sýrður rjómi

5 sneiðar steikt bacon, skorið mjög fínt

80 gr. sterkur Cheddar ostur, rifinn

Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Vorlaukur

Kjötið:

4 sneiðar lamba framhryggur

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Krydd

Frábærar kartöflur til að skreyta hversdagsmatinn með, eða jafnvel helgarsteikina.  Mjög auðvelt að búa til og hægt að gera daginn áður, ef þarf.  Þú skalt muna eftir að pikka kartöflurnar með gaffli áður en þú bakar þær, svo þær springi ekki eins og ég hef lent í, ekkigaman :-( Það er óskemmtilegt að þrífa ofninn eftir svoleiðis sprengingu, trúðu mér.  Sláðu til og prófaðu.

Svona geri ég:

Kartöflurnar:  Ofninn er hitaður í 200°C.  Kartöflurnar eru þvegnar og þerraðar og pikkaðar með gaffli og bakaðar i rúman klukkutíma, eða þar til þær eru fullbakaðar.  Þegar þær eru bakaðar, er best að taka þær upp í höndina með ofnhanska eða með viskustykki,  ef þú ætlar að nota þær strax, eða þú bíður eftir að þær séu nógu kaldar til að meðhöndla þær.  Þá eru þær skornar í sundur eftir endilöngu með beittum hníf og allt innan úr kartöflunum skafið innan úr þeim, með skeið í skál.  Passa að fara ekki í gegnum hýðið með skeiðinni.  Kartöflumaukið er stappað með gaffli, smjöri, ostur,sýrðum rjóma, mestu af baconinu, er blandað út í kartöflumaukið, kryddað til með salti og pipar.   Kartöfluhýðin eru sett á eldfast fat eða bakka og fyllingunni  er skipt á milli kartöfluhýðanna og bakað í 30 mín., þar til fyllingin er gegn heit og osturinn er gylltur.  Skreytt með smávegis af sýrðum rjóma og restinni af baconinu og söxuðum vorlauk.

Kjötið:  Panna er hituð vel heit.  Kjötið er þerrað og litlir skurðir eru skornir með beittum hníf, í gegnum fitulagið, svo sneiðarnar verpist ekki í steikingunni.  Kryddað og steikt i 3-5 mín. á hvorri hlið, þar til kjötið er steikt eins og þú vilt hafa það.  Látið standa í um 5 mín., síðan borið á borð með kartöflunum og góðu salati ef þú vilt.

Verði þér að góður :-)

Hversu gott mm... 🥰