Toblerone Fudge
Það sem til þarf er:
Ca. 25-30 bitar
1/2 bolli sykur
1/2 bolli smjör
3/4 bolli condenced milk, (soðin sæt mjólk)
1/4 tsk. vanilludropar
400 gr. Toblerone, brotið í bita + 100 gr. saxað
Skraut:
Sykraðar berjakúlur frá Odense
Verum við ekki öll svolítið Toblerone sjúk í kringum jólin :-) Það er í sjálfu sér ekkert skrítið því Toblerone er ótrúlega ljúffengt. Ef þú býrð til eitthvað hátíðar góðgæti úr því, verður útkoman yfirleitt alveg himneskt. Hvort sem það er mús, ís, eða eitthvað annað, klárast það eins og skot. Hér er á ferðinni fudge, eða mjúk karamella, búin til úr Toblerone og soðinni sætri mjólk. Ég lofa þér því að hún er dásamleg. Endilega prófaðu ;-)
Svona geri ég:
Ferhyrnt form, sem er 20x20 cm, er fóðrað að innan með bökunarpappír. Sykur, sæta mjólkin, vanillan og smjörið er sett í meðal stóran pott. Suðan er látin koma upp og látið sjóða á meðalhita, á meðan hrært er stöðugt í pottinum á meðan, passa að maukið festist ekki í botninum á pottinum og brenni. Látið sjóða stöðugt í 5 mín., og alltaf hrært í. Tekið af hitanum og 400 gr. af súkkulaðinu, er bætt út í og hrært í á meðan súkkulaðið bráðnar, þá er maukinu hellt í formið. Sléttað úr blöndunni og jafnað vel út í hornin á forminu. Restin af súkkulaðinu er saxað og sett ofan á karamelluna og þrýst létt á það, til að það loði vel við karamelluna og berjakúlurnar ef þú notar þær. Stungið í ísskápinn í 3-4 tíma. Þá er karamellunni lyft upp úr forminu og hún skorin í jafna bita. Svo er bara að njóta og muna að gefa með sér.