Velskt cawl

Það sem til þarf er:

F. 8

2 L vatn

2 tsk. salt

2 hvítir laukar, skrældir

1 kg súpukjöt, framhryggur, hálsbitar eða annað ódýrt lambakjöt, skorið í nokkuð stóra bita

1 kg rófur, skrældar og skornar í 1 cm bita

4 stórar gulrætur, skrældar og skáskornar í sneiðar

1/2 kg nýjar kartöflur, skornar í 4 cm báta

300 gr. bacon í þykkum sneiðum

1 fersk timiangrein

2 lárviðarlauf

2 stórar púrrur, þvegnar vel og skornar í 1 cm þykar sneiðar

Meðlæti:

Gott brauð

Smjör

Ostur, eins og t.d. reyktur ostur frá Goðdölum

Íslenska kjötsúpan er dásamleg. Hún tilheyrir að mínu mati haustinu, uppskerutímanum og sláturtíðinni. En, það eru til fleiri kjötsúpur en sú íslenska. Vinir okkar í Wales eiga sína góðu kjötsúpu sem þeir kalla cawl. Hún er að mörgu leiti svipuð okkar, en það er t.d. bacon í henni og hún er yfirleitt búin til daginn áður en á að borð hana, til að bragðið framkallist vel í henni. Hún er einföld, ódýr, ljúffeng og saðsöm. Ég skoðað nokkrar uppskriftir og þessi er byggð að hluta til á uppskrift frá Jamie Oliver. Endilega prófaðu : -)

Svona gerði ég:

2 L af vatni eru settir í stóran pott með saltinu. Þegar suðan er komin upp er kjötið með beinu og laukurinn settur útí sjóðandi vatnið. Suðan er látin koma aftur upp og hratið af kjötinu er skafið í burtu með götóttum spaða og hent. Látið sjóða í 10-15 mín. Grænmetið er skorið niður og gert klárt á meðan. Kjötið er svo tekið upp úr og vatninu og látið kólna svo að sé hægt að meðhöndla það. Rófur, kartöflur og gulrætur eru settar útí vatni á meðan kjötið er skorið af beinunum og sett útí vatnið aftur, ásamt baconi, timian og lárviðarlaufi. Loki sett á pottinn og soðið 15-20 mín. Kryddað til með salti og pipar. Potturinn er tekinn af hitanum, púrrunni bætt útí og súpan geymd þar til daginn eftir.

Þegar á að ber súpuna á borð, er hún hituð varlega að suðu, síðan látin malla í smástund og smökkuð til með kryddi. Ég læt heila laukinn vera í pottinum á meðan það er eitthvað í honum. Súpunni er ausið í skálar og slatti af svörum pipar malaður yfir hverja skál. Borin fram með brauði, smjöri og þykkum sneiðum af þroskuðum velskum Caerphilly osti. Ég átti hann ekki, heldur notaði reyktan ost frá Goðdölum, sem er mjög góður. Súpan geymist í 3-4 daga í ísskáp og verður bara bragðmeiri með hverjum degi.

Verði þér að góðu :-)

Cawl rhyfeddol ... 😉