Rúlluð eggjakaka með hrognum
Það sem til þarf er:
24 stk.
4 egg
4 msk. rjómi
4 msk. ferskur graslaukur, saxaður
1 msk. olía
40 gr. smjör
Ca. 6 sneiðar hvítt samlokubrauð
60 gr. sýrður rjómi
50 gr. laxahrogn
50 gr. svartur kaviar
Skraut:
Saxaður graslaukur og radísuspírur
Rjómamjúk egg, sölt hrogn og graslaukur er ómótstæðileg samsetning. Það sem mér finnst sérlega gaman við það að steikja eggjakökurnar, er að þá nota ég gömlu pönnukökpönnuna hennar Önnu Kidda, ömmu minnar, en pannan er meira en 70 ára gömul. Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég stóð oft við eldavélina og fékk pönnsur með sykri, beint af þessari pönnu þegar ég var lítil stelpa. Ljúfar minningar :-)
Svona geri ég:
1 eggi, 1 msk. rjóma og 1 msk. af graslauk ásamt salti og pipar er þeytt saman og steikt á olíuborinni pönnukökupönnu í 3 mín. á annarri hliðinni, eða þangað til hún er rétt stífnuð. Þá er henni rennt af pönnunni á bökunarpappír og rúllað þétt upp um leið og hún er orðin nógu köld til að handleika. Passa að ofsteikja kökuna ekki, þá verður erfitt að rúlla henni upp. Þetta er svo endurtekið með restinni af eggjunum. Hverri rúllu er svo pakkað í matarfimu og kælt í minnst 1 klst. (má gera daginn áður), áður en rúllurnar eru skornar í 24 jafnstóra bita. Brauðið er ristað í brauðrist og smurt heitt, svo smjörið bráðni inní það. Svo eru skornir hringir út úr sneiðunum. Ofaná hvern hring er sett 1/2 tsk. af sýrðum rjóma, síðan er 1 bita af eggjaköku þrýst létt, upp á endann, ofaná og skreytt með hrognum, graslauk og/eða spírum.