Bláberja- og rabarbara pie

Það sem til þarf er:

F. 6-8

Deigið:

300 gr. hveiti

1/8 tsk. salt

285 gr. kalt smjör

4-8 msk. ískalt vatn

Fyllingin:

320 gr. rabarbari, þveginn og skorinn í ca. 1 cm bita

230 gr. bláber, þvegin

150 gr. sykur + 1-2 msk. til að setja ofan á, í lokin

2 msk. hveiti

2 msk. kartöflumjöl

1/3 tsk. salt

Fersk múskathneta, dregin nokkrum sinnum yfir fíngert rifjárn

1 tsk. ferskur sítrónusafi

1/2 msk. smjör

1 egg, til að smyrja yfir deigið i lokin

Meðlæti:

Þeyttur rjómi eða góður vanillu ís

Sko, hér er á ferðinni frábær viðbót, við rabarbara uppskriftirnar okkar. Þessi fékk frábærar viðtökur, þegar ég bauð upp á hana um daginn.  Hún er einföld, það eina sem þú þarft athuga, er að hafa tímann fyrir þér. Þú getur gert deigið allt að tveim dögum áður, ef þú vilt og bakað úr því um morguninn, á deginum sem þú ætlar að bera pie-ið á borð. Fyllingin þarf að kólna alveg til að setjast, annars lekur hún út, þegar pie-ið er skorið.  Að öðru leyti er hún lítið mál, svo endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Skelin:  Hveitið er sett í stóra skál, ásamt saltinu, smjörið er skorið í bita og bætt út í hveitið.  Smjörið er nuddað inn í hveitið, með fingrunum, en passaðu að ofvinna það ekki.  Það er best að hætta að vinna smjörið í hveitið, þegar deigið minnir á marmarakúlur.  Þá er vatninu bætt út í 1-2 msk. í einu, þar til það fer að hanga saman.  Þá er því hellt á borðið og hnoðað mjög varlega saman, passa að smjörkúlurnar tapist ekki.  Deiginu er skipt í tvennt, það er ágætt að vigta það, til að hafa helmingana jafna, síðan eru þeir mótaðir í hringlaga kökur og pakkað í plast og stungið í ísskápinn, allavega í 1 klst., eða allt upp í 2 daga.  Þegar á að baka, er deigið tekið úr ísskápnum 1 klst. áður, svo hægt sé að rúlla því út.  Ofninn er hitaður í 190°C22 cm pie form, er smurt vel að innan og ræmur úr smjörpappír lagðar í kross ofan í formið, til að auðvelda að taka pie-ið, upp eftir bökun.  Öðrum deig helmingnum er rúllað út með kökukefli á hveitistráðu borði, í ríflega  stærð formsins, svo það fari aðeins út yfir formbrúnina.  Deiginu er velt upp á kökukeflið og rúllað út ofan í formið og síðan er því ýtt út í formið, varlega með höndunum, kantarni eru snyrtir til með beittum hníf.  Álpappír er settur ofan í formið og keramik kúlur, smápeningar, eða hrísgrjón, eru sett í botninn ofan á álpappírinn, til að fergja deigið.  Bakað í 20 mín., þá er álpappírinn og fargið tekið af og bakað áfram í 5 mín.  Tekin úr ofninum og kæld.  Hitinn er hækkaður í ofninum í 220°C og álpappírinn settur á ofngrindina til að taka á móti berjasafa, ef hann sýður upp úr, svo ekkert brenni í ofnbotninum.

Fyllingin:  Rabarbarinn er skorinn  í 1 cm bita og settir í stóra skál, ásamt bláberjunum, hveitinu, kartöflumjölinu, salti, sítrónusafa og múskati.  Öllu er blandað saman með höndunum, síðan er því jafnað ofan í kalda pie skelina.  Síðan eru smjörklípurnar settar ofan á.  

Samsetningin:  Hinum deig helmingnum er rúllað út, á hveitistráðu borði.  Þegar þér finnst þú hafa rúllað því út, í rúmlega formstærðina, það er ágætt að setja formið á miðjuna, til að mæla það, þá rúllarðu deiginu upp á kökukeflið og rúllar því yfir fyllinguna.  Síðan stingur þú deiginu sem er umfram, innundir og yfir neðri skelin og svo klípur þú brúnirnar í bylgjur, allan hringinn.  6-7 skurðir eru skornir ofan á lokið, til að hitinn hafi leið út, eggið er þeytt og síðan er því smurt ofan á deiglokið með pensli og að lokum er sykrinum strá yfir og pie-inu stungið í ofninn og bakað í 20 mín., þá er hitinn lækkaður í 180°C og bakað áfram í 20 mín., eða þar til þú heyrir fyllinguna krauma inn í skelinni og hún er dökk gullin.  Tekin úr ofninum og látin kólna í forminu, þangað til á að lyfta pie-inu upp og setja á kökudisk.  Borin á borð með þeyttum rjóma eða góðum vanillu ís.

Verði þér að góðu :-)

Deigið

Fyllingin

Samsetningin

Mjög góð 🫐🥧