Heslihnetu praline

Það sem til þarf er:

1 1/2 - 2 meðal krukkur

200 gr. óritaðar heslihnetur

70 gr. möndlur með hyði

110 gr. sykur

50 ml vatn

Heslihnetu praline er geggjað gott, blandað í rjóma í á milli tertubotna, í ísrétti eða á pavlovur, svo má gera eins og Frakkar gera, blanda því út í créme mousseline, og nota það í fyllingu í vatnsdeigsbollur eða til að búa til fyllinguna í París-Brest hring. Það er lítið mál að búa til þetta praline og það geymist vel í ísskáp. Endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 180°C. Hneturnar eru settar á pappírsklædda plötu og bakaðar í 15 mín., kældar. Geymdu pappírsklæddu plötuna til að nota aftur Þá eru þær settar á miðjuna á hreinu viskustykki og hornunum safnað saman og snúið uppá, svo það myndist eins og poki á viskustykkinu. Þá eru hneturnar nuddaðar rösklega í klútnum, til að ná sem mest hýði af þeim, þú gætir þurft að gera það 1-2 í viðbót og hrista úr klútnum á milli til að losna við hýðið. Sykur og vatn er sett í pott og hitað þangað til sykurmælirinn sýnir 120°C, án þess að hræra í sírópinu. Þá er hnetunum blandað út í sykurinn og hann látinn bráðna og brúnast örlítið. Hnetunum er hellt á plötuna og látnar kólna, síðan eru þær brotnar upp og settar í kraftmikinn blandara eða matvinnsluvél og maukaðar þar til olían í hnetunum losnar úr þeim og bleytir í maukinu. Keyrt áfram þar til maukið er flauels mjúkt og þykkt. Sett í krukkur og geymt í ísskáp þar til á að nota það.

Verði þér að góðu :-)

... svo er að leika sér með nammið 🤎🤎