Skosk egg

Það sem til þarf er:

Í 4 tilbúin egg

6 stór egg

200 gr. nýtt kjötfars

200 gr. svínahakk

2 msk. enskt sinnep

3 sneiðar Calabrese spægipylsa, smátt saxaðar

3 msk. söxuð blanda af fersku timian, steinselju og salvíu

2 vorlaukar, mjög smátt saxaðir

1/4 tsk. allrahanda

Sjávarsalt, nýmalaður svartur pipar og smávegis af cayanne pipar

Mjólk

Hveiti

Rasp, helst panco raspur

Olía til að steikja upp úr

Þetta dásamlega pöbba snakk frá Bretlandi, er hrikalega gott.  Ég fæ mér alltaf Skosk egg ef ég er í London.  Mér fannst áskorun að prófa að búa þau til, en það kom mér á óvart hvað það var miklu minna mál að búa þau til, en ég hélt í upphafi.  Ef þú ert á sömu skoðun og ég að finnast skosk egg góð, endilega sláðu til að láttu verða á því að búa þau til :-)

Svona geri ég:

4 egg  eru sett í pott með köldu vatni, láta fljóta vel yfir þau.  Suðan er látin koma upp og þau soðin í mest 4 mín., þá er þeim stungið í skál með ísvatni og þau kæld niður.  Kjöt, spægipylsa, krydd og sinnep er blandað vel saman í skál, með hreinum höndum og skipt í fjóra hluta.  Eggin eru skræld mjög varlega.  Nú er best að búa til línu til að vinna eftir:  2 egg eru slegin út með slurk af mjólk í skál,  hveiti er sett í aðra skál og rasp í þá þriðju.   2 ferningar af plastfilmu sem er ca. 20x20 eru gerðir klárir.  1 hluti af kjötdeigi er settur á annan plastferninginn og hinn settur ofan á hann.  Deigið er síðan flatt út í það stóra köku, að hún nái að hylja 1 egg.  Efra plastið er tekið ofan af deigkökunni. 1 egg er velt upp úr hveiti og það er síðan sett á miðjuna á kjötkökunni.  Plastfilman er dregin saman í skjóðu og eggið hulið deigi.  Því er síðan velt í lófanum og rúllað út, svo það verði hnöttótt.  Þá er egginu veltu upp úr hveiti aftur, síðan eggi og í lokin raspi. Stór pottur er fylltur að þriðjungi af olíu og hún hituð í 170°C.  Eggin eru steikt 2 í einu í ca. 7 mínútur.  Tekin upp úr með gataspaða og umframolían látin leka af þeim á eldhúspappír.  Borin á borð volg eða stofuköld með góðri kaldri sinnepssósu eða piparsósu, grænu salati og ísköldum bjór.

Verði þér að góðu ;-)

Wonderful 🥰🍻