Nauta burrito með svartbaunum

Það sem til þarf er:

8 stk. venjuleg stærð af tortillum

1/2 kg. nautahakk

1 stórlaukur, saxaður smátt 

2 tsk. cumin

1 tsk. reykt paprika

1 tsk. oregano

1 dós svatar baunir + vökvinn í dósinni

1 stór tómatur, saxaður miðlungs stórt

1/2 lime, safinn úr

Sjávarsalt ognýmalaður svartur pipar

2 bollar rifinn ostur

1 pakki tortillur, venjuleg stærð

Meðlæti:

Sýrður rjómi

Hot sauce, mitt uppáhald er Cholula

Limebátar

Avocado sneiðar 

Salat að eigin vali

Þetta eru dásamlega góð burrito.  Það sem er frábært við þau er að þau eru svo auðveld að búa til ekkert dýrt eða fancý í þeim og best að öllu, ef þú býrð til slatta, er frábært að pakka hverju og einu í plast og fryst, því þau frystast frábærlega og krakkarnir elska þau.  Endilega prófaðu ;-)

Svona geri ég:

Miðlungsstór panna er hituð á rúmlegan meðalhita.  Hakkið er pressað á botninn á pönnunni og þrýst út að hliðunum, laukurinn er settur ofan á hakkið og hakkið látið steikjast, án þess að hreyfa það, þar til það er farið að brúnast vel á botninum.  Þurra kryddinu er dreift ofan á laukinn.  Hakkið er brotið upp og öllu blandað vel saman og steikt áfram þar til hakkið er gegn steikt og laukurinn mjúkur.  Baununum ásamt vökvanum úr dósinni og tómatinum, er blandað út í hakkið og það er gott að skrapa upp alla steikar bletti upp úr botninum á pönnunni til að fá allt steika bragðið með.  Steikt þar til vökvinn er soðinn frá að mestu.  Slökkt undir hitanum, limesafanum er blandað út í, ásamt salti og pipar.  Látið kólna aðeins.  Tortillunum er raðað á eldhúsboðið og 2/3 bolli af hakki er sett í miðjuna á hverri köku og dreift aðeins úr því út til endanna, síðan er osturinn settur ofan á hakkið.  Tortillunum er lokað með því að brjóta þær saman og vefja þeim þétt í aflangan lokaða pakka.  Núna getur þú pakkað  inn þeim sem þú ætlar að frysta, eða steikt þær, með samskeytin niður, á meðalheitri pönnu, þar til  þær eru gegn heitar og gulbrúnar að utan.  Bornar fram með sýrðum rjóma, hot sauce, lime bátum, salati og avocado sneiðum.

Verði þér að góðu :-)

Dásamlega gott hversdags 🌯