Nutella bollubrauð

Það sem til þarf er:

1 stk.

400 gr. sigtað hveiti

80 gr. sykur

6 gr. þurrger

1 egg

Börkurinn af 1 sítrónu

50 gr. smjör, brætt

1 1/2 dl volg mjólk

Nutella

Til að pensla með:

1 eggjarauða

Mjólk

Hér er á ferðinni dásamlegt bollubrauð, fyllt með Nutella, já einmitt... ;-)  Til að gera það enn betra, er smá keimur af sítrónuberki, til að gera það hátíðlegt, hversu dásamlegt.  Það er mjög einfalt að baka brauðið og það er hægt að frysta það.  Tilvalið á brunch borðið á aðventunni eða falleg gjöf til að gefa góðum vini.  Endilega sláðu til og bakaðu brauðið, þú verður ekki fyrir vonbrigðum :-)

Svona geri ég:

Hveitið er sigtað í stóra skál, restinni af hráefnunum, fyrir utan mjólkina er sett út í hveitið og blandað létt saman með fingrunum.  Þá er mjólkinni bætt út í og deigið hnoðað mjög létt saman í kúlu, með höndunum, í skálinni.  Deigkúlan er smurð með olíu og plast sett yfir skálina og deigið látið hefast í 1 klst. á volgum stað.  20 cm kringlótt springform er smurt vel að innan.   Deigið er hnoðað upp og skipt í 10 bita.  Hver biti er formaður í kringlótt á borðinu og 1 tsk. af Nutella sett í miðjuna á hverjum deighring og honum svo lokað vel, með því að klípa endana saman, kúlan er sett í formið.  Deigið er allt klárað á sama hátt og formið fyllt.  Látið hefast á volgum stað í 1 klst. með plasti yfir.  Eggjarauðu og mjólk er þeytt saman í litla skál og bollurnar eru penslaðar með blöndunni.  Ofninn er hitaður í 180°C með blæstri og brauðið bakað í 20-25 mín.  Látið kólna og síðan er flórsykri drussað yfir.  Borið fram með góðum kaffibolla eða heitum tebolla.  

Verði þér að góðu :-)

Jólin koma...🤶🏻💫