Hörpuskel með ´Nduja smjöri

Það sem til þarf er:

F. 6

75 gr. mjúkt ósalt smjör

75 gr. ´Nduja

1/2 skarlottulaukur, fínsaxaður

2 msk. sherrý edik

Lítil lúka ferskt kóríander, gróft saxað

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

6 stk. risa hörpuskeljar

Ég verð alltaf svo forvitin þegar ég sé nýtt og spennandi hráefni í búðarhillunum, eitthvað sem ég þekki ekki. Ég kaupi oft eitt stykki til að sjá hvað málið snýst um. ´Nduja (nei ekki prentvilla) er mjúkt kryddað svínakjöts mauk, með chili frá Calabriu á Ítalíu. Það rífur svolítið í, með reyktum undirtón og er frábært krydd. Ég sá þessa uppskrift í blaði og ákvað að prófa hana. Hún er einföld og svakalega góð. Endilega splæstu í krukku af ´Nduja og prófaðu :-)

Svona gerði ég:

´Nduja maukið er sett á kalda litla pönnu, hitað að meðalhita og maukið er brotið í sundur með bakhliðinni á skeið, þar til fitan er farin að leka út og mýkjast. Látið kólna að stofuhita, en síðan er því blandað mjög vel út í mjúka smjörið. Blöndunni er stungið í ísskáp í smástund svo það harðni aðeins. Síðan er smjörið sett á bökunarpappír og því rúllað í mjóa rúllu, sem er álíka stór og hörpuskelin, snúið upp á endana og rúllunni stungið í ísskápinn þar til smjörið er hart. Í lítilli ská er skarlottulauknum, kóríander laufunum og sherrý edikinu, sjávarsaltinu og nýmöluðum svörtum pipar blandað saman og sett til hliðar (best að setja kóríanderinn út í sem allra síðast, svo hann tapi ekki lit). Hörpuskelin er afþýdd og smjörið er tekið úr kælinum. Ein hörpuskel er sett í skel eða í lítið eldfast form/disk, og þykk sneið af smjöri er sett ofan á hverja hörpuskel. Grillið í ofninum er hitað á hæsta hita og skeljunum stungið í ofninn í 5 mín., þar til smjörið er freyðandi og fiskurinn farinn að brúnast aðeins. Borið á borð sjóðandi heitt með edikblöndunni og brauði til að moppa smjörinu upp úr skeljunum. Ískalt Prosecco er fullkomi með.

Verði þér að góðu :-)

Nýjasta æðið mitt 😉