Rúllupylsa með steinselju og hvítlauk

Það sem til þarf er:

1.2-1.5 kg. magurt lambaslag, úrbeinað og mesta fitan hreinsuð af

2 1/2 msk. fínt sjávarsalt

1 tæpl. msk. sykur

4 búnt ferk steinselja

2 feit hvítlauksrif

7-8 matarlímsblöð

1 1/2 -2 tsk. nýmalaður svartur pipar

Út í suðuvatnið:

1- 1 1/2 tsk. salt

150 gr. súpujurtir

Til að bera fram:

Rúgbrauð

Kalt smjör

Rauðlaukur

Nýmalaður svartur pipar

Venjuleg rúllupylsa er kannski ekki það heitasta á matseðlum heimilanna í dag. En, allskonar pylsugerð nýtur mikilla vinsælda og er má segja í tísku í dag. Er þá ekki upplagt að poppa upp gamla rúllarannn og gera hann að hátískuvöru, einmitt núna í sláturtíðinni. Semsagt, gæða hátískuvara beint frá eigin býli, úr eðal íslensku lambi :-)

Svona gerði ég:

Það er gott að skera í burtu mestu fituna, en samt alls ekki alla. Þegar búið er að úrbeina slagið, er salti, pipar og sykri drussað jafnt yfir það. Stilkarnir eru skornir af steinseljunni og þeir geymdir, en blöðin eru sett í matvinnsluvél ásamt hvítlauknum og maukuð. Maukinu er svo smurt jafnt yfir slagið. Matarlímsblöðin eru lögð í bleyti í kalt vatn. Þegar þau eru orðin lin er þeim raðað ofaná steinseljumaukið. Slaginu er síðan rúllað þétt saman og bundið þétt saman með sláturgarni og svo rúllað mjög þétt upp í 2-3 lög af plastfilmu. Hún er látin standa í djúpu fati í 24-36 tíma, ath. það lekur af henni vökvi, honum er hent. Þegar kemur að því að sjóða pylsuna er plastið tekið af henni og hún sett í stóran pott með vatni, svo fljóti yfir hana. Suðan er látin koma upp og froðunni sem myndast á yfirboðinu er fleytt af og henni hent. Síðan eru steinseljustilkarnir og súpujurtirnar settar útí og pylsan soðin á vægum hita í 1 1/2- 2 tíma. Þá er potturinn tekinn af hitanum og lokið tekið af honum en hreint viskustykki sett yfir hann og pylsan látin taka sig í 20-30 min. Þá er hún tekin úr pottinum og sett í rúllupylsupressu. Ef þú átt ekkert svoleiðis má gera ýmislegt eins og t.d. að setja pylsuna í jólakökuform, plast ofaná hana og fergja hana niður með þungum dósum eða öðru svoleiðis. Ég var að gera nokkrar, svo ég pakkaði þeim í plast og setti þær á milli tveggja ofnplata og setti svo gangséttarhellu ofaná. Rullan er geymd í pressunni í 24 tíma í kæli. Þegar kemur svo að því að njóta hennar, finnst mér best að skera hana í sneiðar (þykkt eftir smekk) og setja á rúgbrauð með góðu lagi af köldu smjöri og rauðlauk skornum í þunnar sneiðar og mala svo svolítinn svartan pipar yfir allt. Einn ískaldur öl er mjög viðeigndi með, fyrir pylsugerðarmanninn =D

Verði þér að góðu :-)

P.s. Það er sniðugt að skera pylsuna í hæfilega bita sem passa fjölskyldustærðinni og frysta þá.

Rúllupylsan rokkar!!