Bakaður Gullostur

Það sem til þarf er:

F. 4

1 rúlla smjördeig

1 Gullostur

1 dl grófsaxaðar pecanhnetur

1/2 dl grófsöxuð trönuber

2 msk. hunang

1 egg+1 msk. vatn

Meðlæti:

Perusneiðar

Eplasneiðar

Súrdeigsbrauð eða baguette

Er saumaklúbbur eða einhver skemmtilegur hittingur hjá þér á næstunni? Ef þig vantar hugmynd að einhverju góðu á borðið, þá er ein hér. Yndislegur Gullostur, innbakaður í smjördeig með hunangi, trönuberjum og pecanhnetum.

Svona er farið að:

Ofninn er hitaður í 200°C. Ofnplata með bökunarpappír er gerð klár. Deiginu er rúllað út og skornir úr því tveir hringir, ég notaði kökudisk, geymdu afskurðinn til að skreyta með á eftir. Hnetum, trönuberjum og hunangi blandað saman í skál. Annar deighringurinn er settur á bökunarpappírinn og helmingurinn af hnetumixinu er sett á miðjuna og osturinn ofaná, svo er restin af hnetunum sett ofaná ostinn. Í rest er hinn deighringurinn lagður ofaná ostinn og deigið fléttað saman og klipið þétt saman á brúnunum. Nú læturðu ímyndunaraflið njóta sín og skreytir ostinn með afskurðinum, svo þeytirðu saman egg og vatn og penslar deiðig. Osturinn er bakaður í um 25 mín. eða þangað til hann er gullinn á litinn. Leyfðu ostinum að standa á plötunni í 10 mín. áður en þú setur hann á disk og skerð í hann. Perur og epli eru skorin í báta og borið fram með ásamt brauðinu. Mér finnst æði að bera fram auka hnetuhunang með.

Verði þér að góðu :-)

Ostaflóð 🧀🍎