Steinseljurætur með krydduðu Parmesan krösti

Það sem til þarf er:

F. 6

1 kg. skrældar steinseljurætur, skornar í ca. 4 hluta langsum

4-6 msk. hlutlaus olía

2 msk. gróft maískurl (polenta)

50 gr. fín rifinn Parmesan ostur

1 tsk. Coleman's enskt sinnep

Þessar eru klikkað góðar. Kryddaði Parmesan hjúpurinn er svoooo mikið góður. Ef þú þekkir ekki maískurl, þá er það gróf valsaður þurrkaður maís. Ítalir nota polentu mikið í allskonar meðlæti, eins og t.d. er hún soðin og verður þá eins og kartöflumús, oft krydduð með Parmesan eða öðrum osti og krydduð með jurtum. Stundum er búin til kaka úr soðningunni, hún er kæld og svo skorin í sneiðar og steikt í olíu og borin fram sem meðlæti. Þá er þetta sama mjölið og er t.d. notað til að fletja út pizzur (er í botninum á deigöskjunni sem ferska deigið er í) og er utan á mörgum ítölskum brauðum. Ég hef keypt polentu í Hagkaupum, hún gæti fengist víðar, en svo er líka hægt að fá hana í boxum í matvörubúðinni í IKEA. Ef þú færð það alls ekki, er fínt að nota gróft brauð rasp. Enska sinnepið er sterkt og gott, og fæst í flestum stórmörkuðum, en þú getur gert tilraunir með það sinnep sem þér finnst best.

Svona geri ég:

Steinseljuræturnar: Ofninn er hitaður í 220°C. Steinseljuræturnar eru þvegnar, þerraðar og skrældar. Endarnir eru skornir af báðum megin og síðan er hver rót skorin í ca. 4 hluta, langsum. Suðan er látin koma upp á söltu vatni í rúmgóðum potti. Þær eru soðnar í 6 mín., potturinn er tekinn af og rótunum hellt í sigti og látið renna mjög vel af þeim.

Parmesan kröstið: Polenta, sinnep og Parmesan ostur, er sett í skál og nuddað milli fingra þar til það verður eins og gróf mylsna. Olían er sett í grunna ofnskúffu og stungið í ofninn í 3-4 mín., þar til hún er mjög heit. Rótunum er velt varlega upp úr mylsnunni og þær eru síðan settar með jöfnu millibili í olíuna í heita olíuna í ofnskúffunni og allri lausu mylsnunni dreift ofan á þær og þær bakaðar áfram í 12 mín. þá er skúffan tekin út úr ofninum og rótunum snúið varlega og bakaðar áfram í 12-15 mín. þar til þær eru orðnar stökkar. Teknar upp úr skúffunni með spaða og allur brúnaði osturinn, sem hefur lekið út á plötuna er skafinn upp með og dreift yfir ræturnar, saltað ef þarf. Bornar heitar á borð með kalkúninum og öðru meðlæti.

Verði þér að góðu :-)

Klikkað góðar🤗Ómissandi með ⬇⬇