Lambahryggur með rósmarín pestó brauðhjúp

Það sem til þarf er:

f. 8

Í pestóið:

1 bolli fersk steinselja

1/4 bolli ferskt rósmarín

6 msk. extra virgin ólífu olía

1 msk. fín rifinn sítrónu börkur

1 hvítlauksrif, saxað

Salt og svartur malaður pipar

Í furhnetu-parmesan brauðhjúpinn:

2 bollar dagsgamalt snittubrauð í bitum

1/4 bolli steiktar furuhnetur

1/4 bolli rifinn parmesan ostur (ekki þessi í boxunum)

1 msk. rifinn börkur af sítrónu

1 hvítlauksrif, saxað

1/2 tsk. salt

1/2 tsk. malaður svartur pipar

Lambahryggur:

2 litlir lambahryggir

skornir í tvennt eftir endilöngu

og hver hvelmingur í tvennt þversum

Lambakjötið okkar er alveg dásamlegt hráefni, og hægt að gera svo mikið af góðum réttum úr því.  Mér finnst þessi uppskrift  vera hreint frábær.   Flottur helgarmatur :-)

Svona er aðferðin:

Það er hægt að létta sér undirbúninginn með því að gera pestóið og brauðhjúpinn fyrr um daginn eða jafnvel daginn áður og geyma í kæli. Allt sem á að fara í pestóið er sett í matvinnsluvél og maukað.  Sama er með brauðhjúpinn, það er allt sett í matvinnsluvélna og malað.  Ég læt kjötið alltaf standa útá borði frá morgni áður en ég elda það að kvöldi, mér finnst það verða svo meyrt af því.  Ofninn er hitaður í 180°C.  Stór panna er hituð á háan hita, hryggjar helmingarnir eru nuddaðir með olíu á báðum hliðum og steiktir í um 4 mín. á hvorri hlið, látnir kólna.  Pestóinu er nuddað á ytri hliðina og svo er brauðhjúpnum þrýst létt ofaná.  Hryggjar bitunum er raðað í ofnskúffu og steiktir í 35-40 mín., eftir því hvað þú vilt hafa kjötið mikið steikt.  Þegar það er steikt að þínum smekk, er það látið standa og hvílast í 10 mín., áður en  það er skorið. Ég hafði með þessu Gratíneraðar gulrætur, mér fannst ekki nauðsynlegt að hafa sósu með, af því kjötið var svo safaríkt, en ef þú vilt sósu, er örugglega gott að hafa rauðvínssósu með.  Ég mæli hiklaust með þessum rétti, ótrúlega góður.

Verði þér að góðu :-)

       Veisla 🧄🍽️