Brómberja marens pæ

Það sem til þarf er:

f. 6-8

Í botninn:

200 gr. hafrakex

125 gr. bráðið smör

Í fyllinguna:

150 gr. sykur

400 gr. brómber (fersk eða frosin)

1 msk. Ribena

70 ml. vatn

6 blöð matarlím

150 ml. rjómi, létt þeyttur

50 ml. grísk jógúrt

2 eggjahvítur, þeyttar

Í marensinn:

3 eggjahvítur, stífþeyttar

3 msk.sykur

1 tsk. edik

Meðlæti:

Þeyttur rjómi

Ég fór í dömuhitting í gær og bjó til þetta pæ til að setja á borðið. Stunur og dæs voru helstu kommentin frá þeim, sem gladdi mig mjög mikið :-) Þetta var frumtilraun með pæið svo ég stundi og dæsti með þeim, alveg sammála.

Svona gerði ég:

Kexið er mulið í fína mylsnu í matvnnsluvél og blandað saman við brædda smjörið. Mylsnunni er síðan þrýst í botninn á lausbotna bökuformi (22-23cm í þvermál) það er gott að þrýsta vel með kantinum, kælt. Sykur, ber (ég notaði frosin sem ég var búin að afþýða), Ribena og vatn er sett í pott og mallað í 4-5 mín., Þá er berjablandan sett í matvinnsluvél, maukuð og kæld Passa sig maukið er HEITT. Rjóminn er þeyttur og grísku jógúrtinni hrært útí. Matarlímið er linað upp í köldu vatni. Lin blöðin eru tekin upp úr vatninu. Látið leka af þeim og blöðin síðan brædd yfir vatnsbaði. Smá sletta af berjamauki sett útí til að jafna hitann á því, síðan er því hellt útí kalt berjamaukið og því svo hrært útí rjómann. Að lokum eru eggjahvíturnar þeyttar og þeim hrært varlega saman við berjarjómann. Hellt yfir kexbotninn og kælt í ísskáp í minnst 3-4 tíma helst yfir nótt.

Marens: Eggjahvíturnar eru stífþeyttar í hrærivél og 1 msk., í einu, af sykri, er bætt útí þeyttar hvíturnar og þeytt vel á milli, að lokum er edikið sett útí hvíturnar. Pæið er losað úr forminu (ef það er vel kalt og stíft, losnar það um leið og ýtt er varlega undir lausa botninn) og sett á kökudisk. Marensinum er smurt yfir berjarjómann í fallegum toppum og hann ristaður með logsuðutæki. Skreytt eins og þú vilt, ég skreytti mín með ferskum brómberjum og bleikum rósablöðum. Borin fram með Mars súkkulaðisósu og þeyttum rjóma.

Verði þér að góðu :-)

Áekkiorðhúnersvogóð 😮