Vodka- og rauðrófugrafinn lax

Það sem til þarf er:

f. 10-12

1.2 kg. laxaflak, beinhreinsað

(2 sporðhelmingar með roði er fínt)

6 msk. vodka

125 gr. sykur

100 gr. grófar sjávarsalt flögur (Norðursalt)

2 msk. grófmalaður svartur pipar

1 búnt ferskt dill, grófsaxað

400 gr. hrá rauðrófa, rifin

Piparrótarrjómi:

1 1/2 dl rjómi, þeyttur

2 1/2 msk. rifin fersk piparrót

3/4 msk. hvítvínsedik

1 tsk. enskt sinnep

Góð kreista sítrónusafi

Sykur og salt eftir smekk.

Ég fullyrði að grafinn lax verði ekki betri en þessi. Svo er hann svo auðveldur að búa til og fallegur á disk, að ég tali nú ekki um að bera fram heilt flak á hlaðborði. Rauðrófan litar laxinn svo fallega, frá djúprauðu og tónar svo rólega í laxableika litinn. Piparrótarrjóminn er frábær með og sneið af góðu súrdeigsbrauði.

Svona gerði ég:

Djúpt fat sem er nógu stórt til að rúma laxaflökin er klætt með tvöföldu lagi af álpappír. Annað flakið er lagt á roðhliðina í fatið og helmingnum af vodkanu er nuddað inní flakið (skilur EKKI eftir áfengisbragð). Sykri, salti, pipar, dilli og rifnu rauðrófunni er blandað saman og þrýst ofaná flakið. Restinni af vodkanu er hellt ofaná og hinu flakinu (roðið upp) þrýst þétt ofaná allt. Álpappírnum er pakkað utanum laxinn og farg sett ofaná hann (t.d. niður-suðudósir). Geymdur í kæli og látinn grafast í 2-6 sólarhringa, snúið við og við.

ATH. Vökvinn sem lekur af flökunum útá fatið er hellt af, án þess að pakka flökunum upp. Þegar laxinn er tilbúinn er í lagi að frysta hann ef það á að nota hann seinna. Þegar hann er borinn fram er mesta kryddið skafið til hliðar og laxinn skorinn í þunnar sneiðar og borinn fram með piparrótarrjóma og súrdeigsbrauði.

Piparrótarrjómi:

Rjóminn er létt þeyttur, síðan er piparrrót, ediki og sinnnepi bætt úti og smakkað til með sítrónu salti og sykri. Passa að ofþeyta ekki rjómann því hann þykknar af edikinu og sítrónusafanum.

Súrdeigsbrauð er allt sem mér finnst þurfa með laxinum og rjómanum.

Verði þér að góðu :-)

TOPPURINN :-)