Hakkpanna með súrdeigs ostaloki

Það sem til þarf er:

F. 6

500 gr. nautahakk eða afgangur af elduðum kjúklingi eða lambi

2-3 bollar af söxuðu grænmeti sem til er í ísskápnum, t.d.:

Kartöflur, sætarkartöflur, gulrætur, laukur, 3-4 marin hvítlauksrif, tómatar, paprikur, kúrbítur, gular maísbaunir, niðursoðnar svartar baunir, linsubaunir eða grænar baunir

Gott að krydda með:  Söxuðuð rauðu chili og þeim grænu kryddjurtum sem þú átt, eða þurrkaða ítalska kryddblöndu

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Í súrdeigslokið:

1 1/2 bolli nýr súrdeigs afgangur 

3 egg

1  tsk. salt

1 tsk. þurrkaðar kryddjurtir 

3 msk. kókosolía, eða smjör, brætt

2 tsk. lyftiduft

Ofan á:

1 1/2 bolli rifinn ostur

Margir eru með súrdeigsmæður sem þeir eru að baka úr og fóðra reglulega.  Svo eru margir eins og ég sem baka ekki oft, en fóðra súrinn á 7-10 daga fresti.  Ég hendi afgangs súrnum helst ekki, heldur geymi hann eða nota strax eins og í þennan rétt.  Ég datt um þessa uppskrift á Youtube  og hef notað hana mikið.   Ég elska að geta hreinsað til í ísskápnum við og við og geta nýtt alla smá afgangana í ísskápnum eða frystinum sem eru að gera mig gráhærða.  Það er engin sérsök uppskrift í fyllinguna allt ca.  Þú getur haft pönnuna vegan ef þú vilt.  Rétturinn er æði og allir krakkar elska hann.  Svo færðu kannski hjálp frá dásamlegum litlum aðstoðarmanni eins og ég.  Guðjón Freyr ömmustrákur hafði gaman af að hærra saman súrdeigslokið og enn meira gaman að því að hella því yfir pönnuna. Hann vara ánægður með matinn okkar.  Prófaðu líka hvort þú ert sammála okkur Guðjóni Frey !!  

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 200°C.  Hakkið er steikt á stórri ofnþolinni pottpönnu og grænmetinu bætt út í,  steikt og kryddað vel, má vera svolítið spicy.  Sléttað yfir þegar allt er steikt. súrinn er settur í skál og restinni af hráefnunum hrært í hann, síðan er blöndunni hellt yfir hakkið.  Osturinn er rifinn og dreift yfir súrdeigsblönduna.  bakað í ofni í 25-30 mín.  Tekið úr ofninum og borið strax á borð.

Verði þér að góðu :-)

Geggjaður hversdagsmatur 🧡