Páska marengshreiður með súkkulaði ganache

Það sem til þarf er:

10 stk.

Marengshreiðrin:

95 gr. eggjahvítur, við stofuhita

190 gr. sykur

Kókosmjöl

Súkkulaði ganache:

90 gr. suðusúkkulaði

1 dl. rjómi

1 msk. smjör

Salt á milli fingra

Lítil páskaegg til skrauts

Borin fram með þeyttum rjóma eða ís

Það er fátt sem ég get bætt við það sem myndin segir um þessar sætu krúttbombur.  Hreiðrin eru svo falleg og æðislega góð, enda hvað getur klikkað þegar marengs og súkkulaði er annarsvegar, ekkert. Þau eru auðveld að búa til og hægt að baka marengsinn allavega tveim dögum áður.  Þá er hann geymdur í vel lokuðu boxi með pappír á milli laga, en ekki geyma þau í ísskáp.  Ganacheið er líka mjög einfalt að búa til og það er best að setja það í hreiðrin um 1 klst.  áður en þau eru notuð, svo það sé enn svolítið lint.  Ef þú fyllir þau fyrirfram, þarf að taka þau úr ísskápnum, a.m.k. 1 klst. áður en þau eru borin á borð.   En, go for it, njóttu þeirra, gleðilega páska 🐣

Svona geri ég:

Hreiðrin:  Ofninn er hitaður í 100°C.  Bökunarplata gerð klár með bökunarpappír á, sem búið er að teikna á 10 hringi, 7 cm í þvermál, honum er snúið við, með pennastrikin niður og settur á plötuna, setja smá marengs punkt undir pappírinn svo hann skríði ekki á plötunni þegar þú byrjar að sprauta.  Eggjahvíturnar eru þeyttar í hrærivél, þar til þær eru farnar að mynda toppa, þá er sykrinum bætt út í eggjahvíturnar, í 4-5 skömmtum og hrært vel á milli.  7 mm stjörnustútur er  settur í sprautupoka og  massinn settur í pokann.  Massanum er sprautað inn í hringinn svo hann þeki botninn, svo eru hringir sprautaðir yst, svo það myndist hreiður, kókosmjöli er stráð á efsta hringinn.  Bakað í 1 klst. og 10 mín.  Þá er slökkt á ofninum án þess að opna hann og hreiðrin látin standa í ofninum í 1 klst. í viðbót, svo þau þorni vel.  Tekin úr ofninum og kæld.

Súkkulaði ganache:  Súkkulaðið er brotið i bita og sett í hitaþolna skál.  Rjóminn er hitaður að suðu og hellt yfir súkkulaðið, hrært í þar til súkkulaðið er bráðið, smjörinu og salti hrært út í.  Stungið í ísskápinn í ca. 20 mín., síðan er massanum sprautað ofan í hreiðrin og skreytt með litlum páskaeggjum og meira af kókos.  Má gera daginn áður, en best að taka þau úr ísskápnum að minnsta kosti 1 klst. áður en á að borða þau.  Borin fram með þeyttum róma eða ís.

Verði þér að góðu!  

Marengs hreiðrin 🐣

Súkkulaði ganache 🍫

Gleðlega páska 🐣🍃🌼