Vermouth brasseruð nauta stuttrif

Það sem til þarf er:

F. 4

2 kg. nauta stuttrif

Gróft sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

2-3 msk. ólívu olía

4 skarlottulaukar, 3 fínt saxaðir og 1 í þunnum sneiðum

3 hvítlauksrif, fínt söxuð

2 litlar púrrur, eingöngu hvíti og ljósgræni hlutinn saxaður 

1 sellerí stöngull

1/2 flaska þurrt hvítvín

1 bolli kjúklingasoð

1/2 bolli þurr Vermouth

3 greinar ferskt timian

1/2 búnt steinselja, stilkarnir eru notaðir í suðuna, blöðin til að skreyta með

1 lítill grein af fersku rósmarín

2 miðlungs stórar gulrætur

1/8 bolli hvítvínsedik

1 msk. hunang

Sjávarsalt

1 búnt graslaukur

1 lítið búnt gróf söxuð mynta

Þessi frábæra uppskrift er úr safni NY Times.  Ég prófaði hana um daginn og hún var meiriháttar góð.  Nauta stuttrif eru ekki oft á borðum hjá okkur hér á landi, því miður.  En það er yfirleitt hægt að fá þau í Costco, eða í sérstökum kjötbúðum.  Endilega prófaðu, þú verður ekki fyrir vonbrigðum :-)

Svona gerði ég:

Kvöldið áður en þú ætlað að elda rifin, skaltu salta og pipra þau vel, með ca. 1 msk. af grófu sjávarsalti og 1 1/2 tsk. pipar.  Rifunum er pakkað vel í plast og stungið í ísskápinn þar til ú ætlar að elda rifin.  

Ofninn er hitaður í 160°C. Olían er hituð á meðal háum hita í þykkbotna potti og rifin eru brúnuð mjög vel á öllum hliðum í pottinum.  Ekki setja of mörg í einu í pottinn, gefðu þessu góðan tíma, svo þau verði öll vel brúnuð, í stað þess að þau soðni. Olíu er bætt á pönnuna ef þarf.  Rifin eru tekin úr pottinum og sett á disk þegar þau hafa brúnast.  1 msk. af olíu er bætt í pottinn ásamt saxaða skarlottulaukunum, hvítlauknum, púrrunni og selleríinu, saltað og piprað yfir.  Grænmetið er steikt þar til það er farið að mýkjast í ca. 7 mín., hrært í á meðan og steikraskófin skafin upp úr botninum.  Hvítvíninu, Vermouth-inu og kjúklingasoðinu er hellt út í pottinn og látið malla þar til vökvinn hefur gufað upp til hálfs, ca. 10-15 mín.  Rifunum er komið fyrir í pottinum, steineljustilkarnir,  timían- og rósmaríngreinarnar, eru bundnar saman í búnt, með tvinna og stungið í pottinn.  Suðan er látin koma upp, lokið er sett á pottinn og honum er stungið í ofninn í ca. 2 klst., en rifunum er snúið á 45 mín. fresti.  Þá er gulrótunum stungið í pottinn og látið malla í ofninum áfram í 30 mín.  Kryddbúntið er tekið upp úr pottinum og því hent.  Potturinn er tekinn úr ofninum og settur á helluna.  Rifin eru tekin upp úr pottinum með gataspaða og sett á disk, ásamt mestu af gulrótunum.  Soðið í pottinum er látið sjóða niður þar til það fer að þykkna aðeins, mest af fitunni á yfirborðinu, er fleytt í burt og því hent.  Sósunni er hellt yfir rifin aftur.

Laukurinn í sneiðum, er sett í skál, ásamt hunanginu og edikinu og blandað vel saman,átið standa í um 1 klst.  Graslaukur, steinseljulaufiðog mynta er saxað fínt og sett í skál, til að bera fram með rifjunum, ásamt lauknum.  Það er frábært að hafa góða kartöflumús eða rótargrænmetis mús með, ég hafði rótargrænmetis mús með, sem var æði.

Verði þér að góðu :-)

Geggjuð 🍖🤩