Franskt epla tart

Það sem til þarf er:

F. 8

1 rúlla tilbúið smjördeig (fæst í Krónunni), eða 350 gr. af smjördeigi frá bakaranum

Ca. 300 gr. græn Cox epli eða Ganny Smith

Ca. 300 gr. gul Golden Delicious epli

Safi úr 1/2 sítrónu

50 gr. hrásykur

40 gr. smjör, brætt

2 msk. flórsykur

Kanill

Í eplamaukið:

1 grænt Cox epli, kjarnhreinsað, skrælt og skoið í grófa bita

2 tsk. hrásykur

Borið fram með:

Létt þeyttum rjóma eða mjúkum vanillu ís

Epli eru dásamleg í kökum og bökum. Ilmurinn sem leikur um húsið þegar epli, sykur og kanill bráðna saman, er ómótstæðilegur. Útgáfurnar af eplakökum eru óteljandi, Frakkar eru samt alltaf svo lekkerir og gera t.d. þunnt epla tart, með glerjuðum gljáandi toppi, þetta tart er í þeirra anda. Þú þarft ekki að búa til tart deigið, ég nota keypt út rúllað smjördeig, svo það sparar tíma. Ef þú getur keypt smjördeig hjá bakaranum þínum skaltu endilega gerðu það, það er best, en rúllurnar eru fínar. Nú eru margir komnir með epla tré í garðinn hjá sér, svo að er frábært að nota uppskeruna og gefa heimilisfólkinu eitthvað gott ur henni með sunnudagskaffinu.

Svona geri ég:

Maukið: Eplið er þvegið, kjarnhreinsað, skrælt og skorið í grófa bita. Sett í lítinn pott með hrásykrinum, lokið sett á pottinn og soðið rólega í 5-10 mín., þar til bitarnir eru mjúkir. Sett í lítinn blandara, maukað og kælt.

Botninn: Deiginu er rúllað út á pappírnum sem það kemur á, sett á papppírsklædda bökunarplötu (smjörið og sykurinn getur lekið út, svo það eru minni þrif að hafa pappír undir pappírnum sem deigið er á). 25 cm er hringur er skorinn út og 1 1/2 cm hálfhringur skorinn eftir hringlaga farinu af hvorum afskurði. Kanturinn á deigbotninum er smurður með smá vatni og lengjurnar lagðar yst meðfram kantinn á deiginu. Þrýst létt niður að innanverðu með gaffli. Ofninn er hitaður í 170°C. 1 msk. af sykrinum er stráð yfir deigið. Eplamaukinu er smurt ofan á botninn út að kantinum. Eplin eru þvegin, þerruð, skræld og kjarnhreinsuð. Síðan eru þau skorin í tvennt og síðan skorin þvert yfir í 4 mm sneiðar. Til að passa að þau verði ekki brún, eru sneiðaarnar settar í skál og velt upp úr sítrónusafanum. Eplasneiðunum er raðað ofan á maukið og penslað yfir með bræddu smjöri og sykrinum drussað yfir. Stungið í ofninn og bakað í 30 -40 mín., þar til deigið er full risið og gyllt. Tekið út úr ofninum, pappírinn tekinn undan botninum og grillið hitað. Flórsykri og kanil er blandað saman í litla skál, sett í lítið sigti og dustað yfir eplin. Stungið undir grillið, gott að hafa plötuna ca. 20 cm frá elementinu og grillað þar til sykurinn er bráðinn og eplin eru glerjuð af sykri og aðeins brúnuð á köntunum. EKKI TAKA AUGUN AF TARTINU Á MEÐAN, svo það brenni ekki. Sett á disk og látið kólna eða borið á borð volgt, með létt þeyttum rjóma eða góðum vanillu ís.

Verði þér að góðu :-)

Tarte aux pommes 🍏🍎