Villt gæsabringa með jarðskokkamauki , fíkjusósu og zuccinisalati

Það sem til þarf er:

F. 6

2 stórar gæsabringur

2 msk. gæsafita

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Fíkjusósa:

1 meðalstór skarlottulaukur

1 fingur ferskur engifer, skorinn i sneiða

1/2 tsk. marin kóríanderfræ

9 dl gæsasoð

2 1/2 púrtvín

1 lárviðarlauf

6 þurrkaðar fíkur, skornar nokkra bita

1 msk. jómfrúar ólívu olía

2 msk.  kalt smjör

1 msk. rauðvínsedik

Salt

Jarðskokkamauk:

 1 kg. jarðskokkar, taka nokkra frá til að steikja á pönnu og hafa með

1 dl rjómi

2 msk. gæsafita

Salt

Zuccinisalat:

1 kg. zuccini

1/3 dl jómfrúar ólívu olía

1 msk. ferskur appelsínusafi + fín rifinn börkur

1 msk. ferskur sítrónusafi + fín rifinn börkur

1 tsk. gróft salt

1/2 tsk. nýmalaður svartur pipar

1/4 tsk. chilipipar flögur, marðar milli fingra

1/4 dl furuhnetur, ristaðar

Parmesanostur, fín rifinn

Ef þú ert veiðimaður, eða makinn, er dásamlegt að nota villibráðina sem hefur verið veidd, á hátíðum.  Hér er á ferðinni frábærar  pönnusteiktar  villigæsa bringur, með jarðskokkamauki, sem er allt öðruvísi en t.d. kartöflumús.  Bragðið er fínlegt með smávegis anís keim.  Fíkjusósan er eitthvað annað, með kóríander fræum, ferskum engifer og púrtvíni.  Zuccini salatið er kryddað með sítrus og chiliflögum, sem skera vel í gegnum feita kjötið sem er svo bragðmikið.  Endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Sósan:  Skarlottulaukurinn, engifer og kóríander fræ eru sett í blandara og maukuð.  1 msk. af ólívu olíu er hituð á meðalhita í potti og látið brúnast aðeins við meðalhita, í ca. 5-7 mín., hrært í á meðan.  Púrtvíninu er blandað út í og látið sjóða niður þar til allur vökvinn er næstum gufaður upp.  Þá er gæsasoðinu og lárviðarlaufinu bætt út í og látið sjóða rólega í um 45 mín.   Nú á sósan að vera búin að sjóða verulega niður, þá er hún síuð  í hreinan pott, fikjunum bætt út í og látið sjóða í 2-3 mín., þar til þær eru heitar og  meyrar.  Potturinn er tekinn af hitanum og köldu smjörinu þeytt út í, síðan smakkað til með rauðvínsediki og salti.  Stundum set ég smá hlynsíróp í sósuna eða bláberjasultu, en það er smekksatriði.

Jarðskokkamaukið:  Jarðskokkarnir eru þvegnir mjög vel og settir í pott með söltu vatni og soðnir í 20-30 mín., þar til þeir eru meyrir.  Helmingurinn af gæsafitunni er bræddur í potti á lágum hita.  Soðnu jarðsokkarnir eru settir í matvinnsluvél ásamt, fitunni, rjómanum og 1 tsk. af salti.  Maukað þar til maukið er eins og silki, alveg slétt og kekkjalaust.  Kryddað til með salti.  Hér finnur þú uppskrift af steiktum jarðkokkaflögum.  Ekki sleppa þeim þær eru æði, gefa rétttinum þetta aðeins extra og það má gera þær nokkrum dögum áður.

Zuccinisalatið:  Ólívu olían,  sítrus safinn + börkurinn, nýmalaður pipar og þurrkuðu chiliflögurnar og 1 tsk. salt er þeytt saman í stórri skál.  Zucciniið er þvegið mjög vel og skorið í þunnar lengjur með mandólíni.  Sett í skálina með  dressingunni og velt vel upp úr henni, salatið má alveg bíða í ísskáp í um 1 klst.  Furuhnetum og ferskum parmesan er dreift yfir salatið, þegar það er borið á borð.

Gæsabringurnar:   Bringurnar látnar ná stofuhita, síðan eru þær hreinsaðar og nuddaðar með grófu salti.   Ofninn er hitaður í 100°C2 msk. af gæsafitu eru bræddar á góðri pönnu með þykkum botni.  Bringurnar eru þerraðar vel  og steiktar á háum hita í um 4-5 mín. á hvorri hlið.  Stungið í ofninn í 20 mín., teknar út og látnar hvílast í 10 mín. undir álpappír, áður en þær eru skornar í 2 cm þykkar sneiðar og raðað fallega á disk.

Verði þér að góðu :-)

Sósan

Jarðskokkamaukið

Zuccinisalatið

Gæsabringurnar

Dásamlega villt 🪶🦤🤎