Kaffið mitt

Það sem til þarf er:

Blandan mín:

1 poki Dökkristað Espresso Roma, frá Te & Kaffi

1 poki Súkkulaði og möndlu bragðbætt kaffi, frá Kaffitár

Kannan og mín uppáhelling í hana:

6 bolla Bialetti espresso kaffikanna

2 1/2 pakkaðar, en sléttfullar skömmtunarskeiðar, af blöndunni fyrir ofan

Við sem drekkum kaffi, erum örugglega sammála um, að fyrsti bolli dagsins er dásamlegur. Heilinn setur sig í stellingar um leið og ilmurinn berst að vitum manns, hann vaknar og veit að nú byrjar dagurinn. Á hinn veginn getur vondur eða þunnur bolli, sett súran svip á daginn. Sjálf var ég sein til að byrja mína kaffidrykkju, var að nálgast þrítugt og þótti það vera skortur á góðu uppeldi. Mamma og bróðir hennar, fóru á hverjum degi eftir vinnu til ömmu og fengu sér kaffi hjá henni, en hún var mikil kaffikona. Þegar ég var farin að vinna, gerði ég það líka, þótt ég drykki það ekki. Það var reyndar amma, hún Anna Kidda ,sem kenndi mér að hella uppá, þegar ég var sjö eða átt ára, Þá var settur fjórðungur af Export pillu í kaffið, en Exportinn var notað til að drýgja kaffið á stríðsárunum, þegar kaffi var munaðarvar. Ég man ennþá eftir fallega rauða staukunum sem hann var í. Ef amma fékk þunnt kaffi, sem var höfuðsynd í hennar augum, kallaði hún það "nærbuxnaskol", ekki spyrja mig af hverju, kannski eitthvað sem sagt í hennar sveit, en hún var vestan af Fjörðum, Skálavík til að vera nákvæm. Ég á margar góðar minningar um kaffi og fjölskylduna, saman á góðum stundum yfir heitu góðu kaffi og oft einhverju með. Það hlýjar hjartanu <3

Svona geri ég:

Ég helli úr pokunum í stóra krukku og blanda því vel saman. Ég fylli Bialetti könnuna af köldu vatni upp að merkingunni inn í henni. Set sigtið í og mli kaffið í það, skrúfa könnuna saman og set hana á gasið (rafmagnið) og bíð eftir að sjóði upp í könnuna, þá búbblar í henni og rýkur upp úr stútnum. Helli bollana og nýt í botn, oft með mola af einhverju góðu til að gera upplifunina enn meiri.

Verði þér að góðu :-)

Fátt betra en góður bolli af kaffi ☕🤍🤎