Krabba baka

Það sem til þarf er:

F. 4-5, sem léttur hádegisverður

Deig:

100 gr. kalt smjör

175 gr. hveiti

3 msk. kalt vatn

Fylling:

1pakkning surimi krabbi

1 dós hvítur aspas

1 búnt ferskt dill, saxað

1 msk. sítrónu safi

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Frauð:

150 gr. majones

Sítrónusafi

2 eggjahvítur, stífþeyttar

Mmmmm.... vorleg og dásamleg baka, sem passar akkúrat núna, þrátt fyrir kulda. Ég hef verið að fara í gegnum gamlar handskrifaðar uppskriftabækur, sem hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi. Merkilegt hvað maður gleymir uppskriftum sem voru í miklu uppáhaldi í den, þessi er ein af þeim. Ég man ekkert hvaðan hún kemur, en það skiptir ekki máli, hún er æði. Ekki vera hrædd við deigið i botninum, það er mjög meðfærilegt og auðvelt að búa til, lykilatriðið er að kæla það vel áður en þú fletur það út. Gerðu vel við þig og prófaðu ;-)

Svona geri ég:

Smjörið er nuddað saman við hveitið með fingrunum, svo það líkist grófri brauðmylsnu. Búðu til dæld í mylsnuna og settu kalda vatnið í hana. Hnoðaðu því upp í mylsnuna svo það verði mjúkt og meðfærilegt deig. Hnoðað í kúlu, plast sett yfir og stungið í ísskápinn í amk. 1 klst. Ofninn er hitaður í 180°C. Pæ form með lausum botni er smurt vel að innan. Deigið er flatt út á hveitistráðu borði og það sniðið í formið, pikkað með gaffli og botninn klæddur með bökunarpappír og bökunarperlur eða ósoðin hrísgrjón sett í botninn, svo hann lyftist ekki upp þegar skelin er bökuð. Ef það erekki gert geta brúnirnar sígið á skelinni. Skelin er bökuð í ca. 10 mín., eða þar til hún er gyllt og bökuð. Krabbinn er tekinn úr umbúðunum og skorinn í bita og settur í skál. Aspasinn er síaður vel og settur í skálina ásamt söxuðu dilli, sítrónusafa ,salti og pipar. Fyllingunni er jafnað yfir skelina. Majónesið er hrært upp með sítrónusafa, salti og pipar, og eggjahvíturnar eru stífþeyttar. Þeim er síðan hrært mjög varlega saman við majónesið. Blöndunni er síðan smurt varleg yfir krabbafyllinguna. Bakað í 25-30 mín. þar til bakan er gyllt á toppnum. Borin fram heit eða volg með góðu salati.

Verði þér að góðu :-)

Vorlegt 🍃