Panna Cotta með rósavatni

Það sem til þarf er:

f. 4-6

Rjómalagið:

5 dl rjómi

50 gr. sykur

3 blöð matarlím

3 msk. rósavatn

ATH. ef þú færð ekki rósavatn, er fínt að nota fræin úr vanillustöng í staðinn

Hindberin:

200 gr. frosin eða fersk hindber

2 msk. rósavatn (má sleppa)

2-3 msk. flórsykur

Skraut:

Saxaðar pistasíu hnetur

Candy floss

Rósablöð, vel þvegin

Rósavatn hefur verið notað í matargerð í Persíu og víðar í mið-austurlöndum frá örófi alda. Það gefur sælgæti eins og Turkish delight sitt ákveðna bragð og er líka notað sem bragðefni í Baklava kökur, ís og til að krydda allskonar drykki eins og t.d. te. Mér finnst það frábært á bragðið, það er eins og að borða ilminn af dökk bleiku- eða rauðu rósunum sem við kaupum okkur út í búð, svo bætir þú við rjómabúðingnum og hindberjunum, og þá er ég í sæluvímu ;-D ekki slæm upplifun það. Því miður fæst rósavatn ekki víða í búðum hér, en það er stundum til í austurlensku mörkuðunum hér í bænum, en vonandi breytist það.

Svona er aðferðin:

Rjómi og sykur er hitað í potti, að suðu á lágum hita, ca. 15 mín.EKKI sjóða. Á meðan er matarlímið bleytt upp í köldu vatni þar til það er mjúkt, auka vatn er svo kreist úr því. Potturinn er tekinn af hellunni og matarlímið sett útí og hrært í þar til það leysist upp. Kælt í smá stund síðan er rósavatninu bætt útí. Hellt í könnu í gegnum sigti og sett í ísskáp og kælt þar til það fer að þykkna og halda lögun, um 40 mín.

Hindberin:

Berin eru marin létt og blandað saman við rósavatnið og flórsykurinn, gott er að smakka berin, þau geta verið mis súr. Þegar rjómablandan er byrjuð að stífna, er helmingnum hellt í 4-6 glös og þau sett í kæli þar til rjóminn er alveg stífur, þá er helmingnuaf hindberjunum látinn ofaná og svo aftur rjómi og ber. Látið bíða í ísskáp í nokkra tíma. Ég hef gert þetta deginum áður (óskreytt) og það var í góðu lagi.

Til að skreyta glösin:

Er söxuðum pistasíum dreyft ofaná, síðan Candy Floss toppur, mér finnst fallegast að hafa það blátt eða ljósgrænt, sem tekinn er úr dósinni með 2 göfflum (svo það bráðni ekki milli fingra) og síðast 1-2 rósablöðum, bleikum eða rauðum.

Verði þér að góðu :-)

Exotic.....