Eplapæ kökur með mjúkri karamellu
Það sem til þarf er:
Ca. 40 stk., nokkuð stórar
200 gr. haframjöl,
300 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
1/4 tsk. matarsódi
1 1/4 tsk. kanill
3/4 tsk. engiferduft
1/4 tsk. salt
110 gr. mjúkt smjör
200 gr. dökkur púðursykur
100 gr. sykur
2 stór egg
1 tsk. vanilludropar
1 rautt Royal Gala epli
Ofan á:
18 rjóma karamellur, frá Góu
5 msk. rjómi
Gróft sjávarsalt
Geggjaðar...., mjúkseigar, kryddaðar, með mjúkri djúsí rjómakaramellu og saltkornum. Þessar ilma og smakkast eins og jólin, enda með öllum jólakryddunum sem við elskum. Ekkert mál að baka og klárast eins og skot úr boxinu. Prófaðu :-D
Svona geri ég:
Hafrarnir eru púlsaðir nokkrum sinnum í matvinnsluvél eða blandara. Sykur, púðursykur og smjör er þeytt létt og ljóst í hrærivél. Síðan er eggjum og vanillu þeytt út í, þar til allt er vel blandað saman. Hveiti, höfrum, lyftidufti, matarsóda, kryddum og salti er blandað saman í stóra skál. Eplið er þvegið vel, kjarnhreinsað og skorið í litla bita. Þurrefnunum er hrært vel saman við smjörblönduna, síðan er eplunum hrært út í deigið. Skálinni er stungið í ísskápinn og deigið kælt í 1 klst. Ofninn er hitaður í 190°C. Bökunarpappír er settur á nokkrar ofnplötur. 1 msk. af deigi er sett með nokkurra cm millibili á plöturnar. Ég bakaði 2 plötur í einu í 13-15 mín., og sneri plötunum einu sinni á bökunartímanum. Kökurnar eru teknar úr ofninum, settar á grind og kældar. Á meðan kökurnar kólna, eru karamellurnar settar í lítinn pott og bræddar með rjómanum á lágum hita, hrært í á meðan svo þær brenni ekki. Þegar karamellan er brædd, er kökunum raðað þétt, í einfalt lag á pappír. Karamellan er sett í einnota sprautupoka og smá gat klippt af endanum á honum og karamellunni sprautað yfir kökurnar (passaðu þig, karamellan er heit). Í lokin er smávegis af grófu sjávarsalti dreift yfir. Kökurnar eru látnar bíða á pappírnum þar til karamellan hefur stífnað. Geymdar í boxi með smjörpappír á milli laga.