Reykt ýsu pie

Cullen skink pie

Það sem til þarf er:

F. 4

4 1/2 dl mjólk

3 dl rjómi

750 gr. reykt ýsa, með roði

6 svört piparkorn

1 lárviðarlauf

250 gr. nýjar kartöflur, þvegnar og skornar í teninga

2 púrrur, vel þvegnar og skornar í 1 cm sneiðar

50 gr. smjör

45 gr. hveiti

2 msk. fersk steinselja, söxuð

500 gr. smjördeig

1 eggjarauða

Hvernig borðar þú reyktu ýsuna þína?  Soðna með bræddu smjöri og kartöflum eins og ég?  Hún er æði þannig, en Cullen skink pæ, tekur ýsuna á annað plan.  Smá sögulegt innslag:  Cullen er fallegur bær í Skotlandi, sem stendur við strendur Norður Sjávar. Cullen skink súpa, var oft borðuð þar í den,  en "skink" er gamalt orð sem vísar í sköflungsbeinið ekki skinku :)  Þá var nauta leggur notaður í súpuna, en þar sem oft var lítið um svoleiðis „munað“ í Cullen í gamla daga, fóru menn að nota það sem hendi var nær, reykta ýsu, sem var soðin í mjólk og rjóma með nýjum kartöflum og lauk. Í þessari uppskrift erum við að tala um dásamlegt pæ, með stökku smjördeigsloki, dásamlega kremað og bragmikið, langur vegur frá sköflungssúpunni í gamla daga. Dýrðlegur réttur sem á klárlega heima á veisluborði dagsins í dag.  Endilega prófaðu!!

Svona geri ég:

Ýsan, mjólk, rjómi, piparkorn og lárviðarlauf eru sett í pott og suðan látin koma upp (hafðu auga á pottinum svo mjólkin sjóði ekki upp úr). Látið malla rólega í 5-7 mín. Fiskurinn er tekinn upp úr mjólkinni með gataspaða (ekki henda henni) og settur á disk.  Roðið skafið af fisknum og hann beinhreinsaður. Fiskurinn losaður varlega í sundur með gaffli í nokkuð stóra bita og geymdur. Mjólkurblandan er sigtuð og sett í pottinn aftur, ásamt kartöfluteningunum og þeir soðnir í 8 mín.  Þá er púrruni bætt út í pottinn og soðið áfram í ca. 2 mín.  Grænmetið er tekið úr mjólkinni með gatsspaða og sett á disk, mjólkin er geymd.  Smjörið er brætt í hreinum potti, hveitinu er hrært útí og látið malla rólega í 1 mín.  Þá er mjólkurblöndunni hellt út í og hrært í viðstöðulaust, þar til sósan þykknar, svo að myndist ekki kekkir í sósuna.  Hitinn er lækkaður og látið malla og hrært í á meðan í 4-5 mín., saltað og piprað.  Ýsunni, kartöflunum og púrrunni er bætt út í jafninginn og hrært varlega í, smakkað til með steinseljunni, salti og pipar.  Sett í 4 eldfastar skálar ca. 14x11 cm,  (eða ein stóra) og látið kólna í ca. 1 klst.  Smjördeiginu er skipt í 4 hluta og hver hluti flattur út á hveitistráðu borði og lok lagt ofan á hverja skál, lítill skurður, loftgat, skorið í mitt lokið.  Ef þú nennir, er gaman að nota afskurðinn til að skreyta lokin með.  Á þessu stigi getur þú látið réttinn bíða til kvölds í ísskápnum.  Þegar þú ert tilbúin að baka pæið, er það tekið úr ísskápnum og ofninn hitaður í 200°C.  Eggjarauðan er þeytt í skál og henni svo penslað ofan á smjördeigslokin og pæin bökuð í 25-30 mín., þar til deiglokin eru gyllt og stökk og pæið gegnheitt.  Það skemmir ekki að bera fram, gott salat og kælt hvítvín með.

Verði þér að góðu :-) 

Geggjað 😉