Karrý brauðréttur Kittýar

Það sem til þarf er:

F. 6-8

1 pakki karrý hrísgrjón frá Bachelors

500 gr. poki rækjur

1 dós sveppir, geyma soðið

4  msk. kúfaðar, af majónesi

2 1/2 tsk.  karrý

1/2 búnt ferskur kóríander, saxað

Sjávarsalt

Nýmalaður svartur pipar

Sítrónusafi

1 dl rjómi

6-8 sneiðar hvítt samlokubrauð

100 gr. rifinn ostur

1-2 msk. brauð rasp, turmeric og paprikuduft

Ég hef verið að fara yfir gömlu handskrifuðu matreiðslubækurnar mínar, sem eru margar komnar til ára sinna.  Þar er ýmislegt að finna og ég er hissa á því, hvað maður getur gleymt mögum réttum sem voru í miklu uppáhaldi í den. En það greinilega hafa komið nýir réttir sem skyggðu á þá sem voru fyrir.  Það á við um þennan rétt, sem Kittý vinkona mín gaf okkur saumaklúbbnum einhvern tímann.  Ég breytti réttinum aðeins, í takt við tímann og gerði hann fyrir okkur Guðjón eitt kvöldið þegar við ætluðum að hangsa yfir sjónvarpinu, þá er svo gott að fá eitthvað gúmmelaði og þessi karrý brauðréttur var alveg málið, við borðuðum á okkur gat.  Hann passar á kaffiborðið, í fjölskylduveisluna eða til að njóta með fjöllunni hvenær sem er.   Endilega skellu í einn karrý brauðrétt ;D

Svona gerir þú:

Rækjurnar eru afþýddar og vatnið látið leka vel af þeim.  Hrísgrjónin eru soðin skv. leiðb. á pakka, kæld.  Majónesið er hrært upp með rjómanum, karrýinu, salti, pipar, smávegis af sítrónusafa og turmerik.  Rækjunum, sveppunum, kóríander og hrísgrjónunum er blandað út í majónesið, smakkað til.  Krinlótt eldfas fat með háum köntum er smurt vel að innan.  Brauðsneiðarnar eru skornar í fernt, horn í horn.  Brauðinu er raðað í botninn á forminu og bleytt vel í því með hluta af sveppasafanum.  Helmingnum af fyllingunni er jafnað yfir brauðið, síðan er öðru lagi af brauði raðað ofan á og bleytt vel í með meiri sveppasafa.  Restinni af fyllingunni er jafnað yfir brauðið og síðasta laginu af brauði og bleytt vel í því með safa.  Í lokin er góðu lagi af osti dreyft yfir, raspinu ofan á ostinn og síðan smá turmerik og paprikuduft til skrauts.  Bakað í ofni í 30 mín., á 190°C og borið heitt á borð.  Má búa til daginn áður og geyma í kæli, tekið úr kælinum 1 klst. áður.

Verði þér að góðu ;-)

Kreisí gott 😋