Kalkúnabacon- og ætiþistlabaka

Það sem til þarf er:

F. 4

1 pakki tilbúið rúllað smjördeig

1 pakki kalkúnabacon, gróft skorið

1 laukur í sneiðum

Smjör til að steikja upp úr

1 krukka ætiþistlar í olíu

4 egg

1 dl rjómi

50 gr. Parmesan ostur

Sjávarsalt og ýmalaður svartur pipar

Nokkrar greinar fersk steinselja

Kalkúnabacon er nýkomið á markaðinn frá Reykjabúinu. Það er alger snild, mjög bragðgott og meinhollt. Mér datt í hug að setja það í dásamlega böku með ætiþistlum, eggjum og ostum, hvað er betra með brakandi grænu salati, nammmm? Einfalt, ekkert deig til að fetja út, klikkað gott og ef það verður sneið eftir, er hún geggjuð í hádeginu daginn eftir. Endilega prófaðu!!

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 190°C. Lausbotna bökuform er smurt vel að innan með olíu. Deiginu er rúllað út og formið fóðrað að innan með því, botninn er pikkaður með gaffli og pappír settur ofan á deigið og botninn á deiginu þakinn með fargi „bökunar baunum“ eða ósoðnum hrísgrjónum, eins og ég geri. Bakað í 10-12 mín., pappír og farg er tekið upp úr og skelinni leyft að kólna aðeins. Baconið og laukurinn er léttsteikt á pönnu í svolitlu smjöri. Olían látin leka af ætiþistil hjörtunum og þeim raðað ofan í skelina, með lauknum og baconinu. Egg, rjómi og 30 gr. af Parmesan ostinum og saxaðri steinselju er þeytt saman í skál, smakkað til með salti og pipar. Hellt yfir fyllinguna og restinni af ostinum dreift ofan á. Bakað í 25-30 mín. þar til fyllingin er bökuð og stinn. Borin fram volg með grænu salati.

Verði þér að góðu :-)

Dásemdin ein 😋💘