Kálfalæri með svörtum kantarellum
Það sem til þarf er:
f. 4-5
1.8-2.3 kg. kálfalæri
Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
20 fersk salvíulauf, fínsöxuð
2 tsk. ferskt rósmarín, fínsaxað
100 gr. smjör
3 hvítlauksrif, skræld og skorin i þunnar sneiðar
1 krukka þurrkaðar svartar kantarellur eða porcini sveppir, bleyttir upp skv. leiðb. á krukku (geyma smávegis af vökvanum)
250 ml. þurrt hvítvín
Fyrir nokkuð mörgum árum keypti ég bók með uppskriftum frá The River Cafe, sem er ítalskt veitingahús í London. Þar stjórna þær Ruth Rogers og Rose Gray. Þær eru miklir meistarakokkar og nota besta fáanlega hráefni og því það sem er ferskast á hverjum árstíma, sem ég er mjög hrifin af. Öll matreiðslan er einföld, svo hráefnið njóti sín sem best.
Svona gerði ég :
Ofninn er hitaður í 150°C. Lærið er kryddað með salti og pipar, síðan er salvíu og rósmarín nuddað á allt lærið. Helmingurinn af smjörinu er brætt á pönnu, sem er nógu stór fyrir lærið. Þegar smjörið freyðir er lærið brúnað á ölllum hliðum, síðan er lærið sett til hliðar og fitunni hellt af pönnunni. 15 gr. af smjöri eru brædd á pönnunni og hvítlaukurinn og sveppirnir (sem eru bleyttir upp skv. leiðb. á pakka) steikt í stutta stund, svo er slurki af sveppavatninu hellt á pönnuna og láitðr sjóða uppá, svo öll steikarskófin á pönnunni losni og sjóði með (deglaze). Þetta verður að gera á háum hita. Víninu er hellt útá pönnuna og hitinn lækkaður. Lærið er sett aftur á pönnuna og restinni af smjörinu er sett í klípum ofaná. Lærið er hulið með smjörpappír og pönnunni lokað að hluta til, annaðhvort með álpappír eða loki. Eldað áfram á pönnunni eða í ofni í 1 klst., (medium rare)eða þar til kjötið er steikt að þínum smekk. Borið fram með safanum af pönnunni og polentu eða kartöflustöppu með parmesan...... glas af góðu hvítvíni fer vel með.....