Rolo brúnka með salti

Það sem til þarf er:

200 smjör

200 gr. suðusúkkulaði

125 gr. dökkur muscavado sykur, eða dökkur púðursykur

125 gr. sykur

4 egg, þeytt

1 tsk. vanilludropar

125 gr. hveiti

1 msk. kakó

1 msk. grófar sjávarsaltflögur

150 gr. Rolo molar, hemingjur saxaður, restin í heilu

Þessi brúnka hefur oft verið bökuð á mínu heimili. Hún var m.a. einn af eftirréttunum sem ég bauð uppá í 60 afmælinu mínu, hún er einföld og svooo góð. Hvað er það við súkkulaði og salt samsetninguna sem er svona gott? Hvað sem það er, er það dásemd í munni. Bættu svo við ferskum berjum, eða ristuðum hnetum, ís eða þeyttum rjóma, nei hættu nú alveg..... ;-D

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 180°C. 20x20 cm form er smurt að innan og bökunarpappír sniðinn í það svo hann standi uppfyrir brúnina á forminu. Helmingurinn að Rolo-molunum er gróf saxaður og geymdur. Súkkulaði og smjör er brætt í potti, á lágum hita og hrært í á meðan svo það brennni ekki við botninn. Tekið af hellunni og kælt lítillega. Egg, sykur, vanilludropar og muscavado sykurinn, er þeytt létt og ljóst og síðan er súkkulaðinu blandað saman við eggjahræruna. Hveiti og kakó er sigtað, blandað saman við deigið með sleif og smakkað til með salti. Söxuðu Rolo-molunum er hrært varlega útí og deiginu hellt í formið. Heilu molunum er þrýst létt ofaní deigið hér og þar og smávegis af grófum saltflögum stráð yfir. Bakað í 25-30 mín. þar til brúnkan er bökuð að utan, en enn svolítið blaut inní. Látin kólna í forminu. Borin fram með ferskum berjum, ristuðum hnetum, ís eða þeyttum rjóma. Ég ber hana fram með ísnum hér fyrir neðan.

P.s.

Ef þú nennir:

1/2 - 1 L góður vanilluís, látinn mýkjast aðeins upp á borði

1-2 velþroskaðir bananar, stappaðir

1/2 - 1 lúka af ristuðum pecan hnetum, saxaðar

Þessi ís er frábær með brúnkunum og er ekkert mál að búa til. Hlutföllin af hnetum og banana hefur þú eins og þér hentar. Ísinn er hrærður upp með gaffli í boxinu, rest er blandað útí og stungið aftur í frystinn. Tekinn úr frystinum 10 mín. áður en hann er borinn á borð með brúnkunni. Æði!

Verði þér að góðu :-)

Æði.... 🥰