BLT samlokan

Það sem til þarf er:

F. 2

150 gr. gott bacon, steikt stökkt

1 stór og mjög vel þroskaður tómatur, skorinn i miðlungsþykkar sneiðar

4 sneiðar uppáhalds súrdeigsbrauðið þitt

Nokkur salatlauf 

Majones

Smjör

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Í dag er frekar grár og lítið spennandi dagur hér í Lissabon.  Mig langaði í eitthvað djúsí og gott í hádegismat, ég hreinlega nenni ekki salati í dag.  Ég kíkti í ísskápinn, til að sjá hvort eitthvað leyndist þar, svo ég gæti látið eftir þessari löngun minni.  Eftir að hafa rótað í hillunum fann ég akkúrat það sem mig langaði í og gat búið til.  Bingó.... BLT samloka.... ÓMG!!!  Ef þú þekkir hana ekki, leyfðu mér þá að kynna hana fyrir þér, hún gæti orðið næsta uppáhalds sukkmaturinn þinn á gráum degi, eða hvaða degi sem er :-)  

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður i 200°C.  Bökunarpappír er settur á bökunarplötu og bacon sneiðunum er raða í einfalt lag á pappírinn.  Baconið er steikt í ca. 15-20 mín. , þar til það er alveg stökkt.  Þá er það tekið af plötunni og sett á eldhúspappír og látið kólna.  Önnur hliðin á hverri brauðsneið er smurð með þunnu lagi af smjöri og sú hlið er steikt á mjög heitri pönnu þar til hún er gulbrúnt og steikt.  Tómatarnir eru þvegnir vel og þerraðir, síðan skornir í miðlungsþykkar sneiðar, saltaðar og pipraðar.  Steiktu hliðarnar á brauðsneiðunum eru smurðar með góðu lagi af majónesi (ekki vera nísk) síðan er baconinu dreift á milli tveggja sneiða, tómatarnir eru settir ofan á, síðan er salatið lagt ofan á tómatana og í lokin er hin brauðsneiðin lögð ofan á og þrýst létt niður á hana.  Hver samloka er skáskorin í tvennt, lögð fallega á disk og notið í botn.

Verð þér að góðu :-)

Draumurinn rættist 😉