Eplakaka Ástu vinkonu

Það sem til þarf er:

F. 8-10, litlir skammtar (ég nota krukkur undan kavíar), en það má setja hana í eina stóra skál

5 epli, rauð og græn

1/2 krukka eplamauk

50 gr. smjör

1/2 bolli púðursykur

1/2 poki tæplega, af eplaköku raspi

Grænn matarlitur, ef vill

Til skrauts:

Þurrkaðar eplasneiðar

Þeyttur rjómi

Hér er mætt eplakakan hennar Ástu vinkonu, en Ásta vinkona var besta vinkona mömmu, frá unga aldri. Mamma fékk uppskriftina hjá henni, einhvern tímann í den, enda er uppskriftin ekki ný af nálinni. Ég þekkti Ástu frá fæðingu og þótti undurvænt um hana, enda ekki annað hægt, þegar eins mikil eðalmanneskja og hún var, var annarsvegar, bæði mjög skemmtileg og svo góð. Mig vantaði góðan og hátíðlegan eftirrétt, þegar ég átti von á fólkinu mínu í jólahitting og hringdi í Múttu, eins og svo oft áður, til að fá hugmyndir. Hvað með eplakökuna hennar Ástu vinkonu, þessa með raspinu??? Þar með var það slegið! Hún sló auðvitað í gegn hjá mínu fólki, svo ef þú þekkir ekki þessa gömlu góðu uppskrift, endilega prófaðu hana, hún er þess virði :-)

Svona er aðferðin:

Eplin eru skræld, kjarnhreinsuð og skorin í litla bita. Eplabitarnir eru settir í rúmgóðan pott, með smávegis af vatni og eplamaukinu. Látið malla þar til eplin eru meyr, tekið af hitanum og kælt. Ef þér finnst liturinn ekki nógu spennandi á maukinu, eins og mér, settu orlítinn grænan mataarlit í eplamaukið. Smjör, púðursykur og eplaköku raspið er léttsteikt á pönnu, þar til púðursykurinn er upplestur og raspið tekið á sig smá lit, tekið af hitanum og kælt. Hefðin er að setja kökuna saman í lögum í eina stóra skál, en ég hef sett hana í margar litlar krukkur. Þú byrjar á að setja rasp í botninn svo eplamauk svo koll af kolli, en endar á raspi. Plast er sett yfir skálina eða krukkurnar og þær geymdar þar til daginn eftir, mér finnst hús best eftir tvo daga, þá er allt orðið svo mjúkt og dásamlegt. Skreytt þurrkuðum eplasneiðum og rjómatoppum og svo rjóma í skál til að bera fram með.

Verði þér að góðu :-)

Hátíðleg nostralgía 🍎🎄🍏