Rauðrófur, hnúðkál og kartöflur

Það sem til þarf er:

f. 4-6

1 stór rauðrófa, skrælt og skorin í lengjur

1 stórt hnúðkál, skrælt og skorið í bita

5-6 miðlungssótar kartöflur, þvegnar og skornar í báta

Gróft sjávarsalt

Nýmalaður svartur pipar

Nokkrar greinar ferskt timian

Ólífu olía

Íslenska grænmetið er upp á sitt allra besta núna. Tegundunum sem boðið er uppá í verslunum og mörkuðum fjölgar alltaf. Öll eigum við okkar uppáhalds samsetningu af ofnbökuðu rótargrænmeti. Þess vegna er upplagt að prófa að setja saman nýjar blöndur, þessi er ættuð frá Ingu dóttur minni. Ég féll fyrir henni, kannski vegna þess að ég er mjög hrifin af rauðrófum, en bakað hnúðkál er hinsvegar nýtt fyrir mér.

Það sem ég gerði er:

Ofninn er hitaður í 200°C. Það er nauðsyn-legt að fara varlega þegar rauðrófan er skræld og skorin, passa að hún liti ekki borðin hjá þér, og vera með hanska, annars verða hendurnar þínar rauðbleikar þar til í næstu viku :-/ Rófan og kálið er skrælt og skorið í bita og lengjur, kartöflurnar skornar í báta og öllu komið fyrir í ofnskúffu, nema ég set rauðrófurnar ofaná síðast, svo það verði ekki allt bleikt. Góðum slurk af ólífu olíu er hellt yfir saltað og piprað, ásamt nokkrum greinum af timian. Ég ríf blöðin af nokkrum greinum og hef nokkrar heilar. Öllu balndað vel saman og bakað í 30-40 mín., eða þangað til grænmetið er meyrt.

Verði þér að góðu :-)

Verður ekki hollara 🌿🌱