Kryddlegnar perur

Það sem til þarf er:

900 gr. litlar perur

6 dl hvítvínsedik

225 gr. sykur

1 kanelstöng

5 stk. stjörnuanís

10 negulnaglar

Ég sauð niður svona perur fyrir jólin í fyrra.  Þær eru frábærar, góðar með allavega paté, á ostbakkann með kaldri skinku og örugglega mörgu fleiru. Þessar sem ég notaði eru minni en þær sem fást oftast í búðum.  Ég keypti þær sem ég notaði í Kosti, en þær gætu fengist víðar. Svo er allt í lagi að nota stærri perur, en þá er líklega best að helminga þær.  Bragðið er mjög jólalegt. Ég er alltaf hrifin af perum, í uppskriftinni er sagt að það eigi að sigta stóra kryddið frá í lokin, ég gerði það ekki, mér fannst fallegra að hafa það með í krukkunni, og það skaðaði alls ekki bragðið 

En svona er farið að:

Perurnar eru skrælar með beittum hníf, að stilknum, en hann er látinn halda sér og efsti hlutinn af berkinum við stilkinn. Hvítvínsedikið og sykurinn er hitað í potti og hrært í stöðugt á meðan þar til sykurinn er bráðinn. Leginum er hellt yfir perurnar, og þær látnat malla á mjög lágum hita í 15min. Þá er kanelstönginni, negulnöglum og stjörnuanísnum bætt útí og soðið áfram í 10 mín.  Þá eru perurnar teknar úr leginum og pakkað þétt í steriliseraðar  og hreinar krukkur.  Sýrópið er soðið áfram í 15 mín., síðan er það sigtað og svo hellt yfir perurnar.  Krukkunum er lokað vel og þær geymdar á svölum dimmum stað.  Þær geymast í nærri 1 ár í lokaðri krukku, en þegar búið er að opna krukkuna er besta að nota hana á 1 viku.

Svona sótthreinsa ég krukkur:

Ég hita ofninn í 150°C.  Nýþvegnum krukkum og lokum er raðað í ofnskúffu og þær bakaðar í ofninum í 20 mín.  Sultunni er ausið sjóðheitri í krúkkurnar.

Passa puttana sultan og krukkurnar eru heitar!

Jólabragð 🍐💫