La créme mousseline

Það sem til þarf er:

375 ml mjólk, ekki létt mjólk

1 vanillustöng

80 gr. sykur

3 eggjarauður

30 gr. maísmjöl

15 gr. hveiti

20 gr. + 150 gr. smjör, mjúkt

1/2 blað matarlím

La créme mousseline er klassískt krem í frönskum bakstri og matargerð. Það er yfirleitt byrjunin á einhverju gómsætu. Geggjuðu kaffibrauði eða eftirrétti sem eru ómótstæðilegir. Það er einfalt að búa það til og má gera daginn áður. Endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Vanillu stöngin er klofin í tvennt og kornin skafin úr henni. Fræin og stangirnar sjálfar eru settar í mjólkina sem er hituð að suðu í meðalstórum potti. Matarlímið er bleytt upp í skál með köldu vatni. Eggjarauðurnar og sykur eru þeytt létt og ljóst, með písk í stórri skál, síðan er maísmjölið og hveitið þeytt út í, svo það verði kekkjalaust. Vanillu stangirnra eru teknar úr heitri mjólkinni og henni er þeytt út í eggjamassann og hrært í stöðugt á meðan. Blöndunni er hellt aftur í pottinn og kremið látið sjóða, þar til það þykknar, hræra í stöðugt á meðan. Potturinn er tekinn af hitanum og 20 gr. af smjöri er þeytt út í heita blönduna, þar til það bráðnar. Matarlímið er tekið úr vatninu og brætt yfir vatnsbaði og síðan hrært út í heita blönduna. Kremið er sett í skál og plast sett beint ofan á kremið og því svo stungið í ísskáp og látið kólna alveg. Þegar á að nota kremið, er það tekið úr ísskápnum og látið ná stofuhita. 150 gr. af mjúku smjöri er þeytt létt og ljóst í hrærivél eða með handþeytara, síðan er kremið þeytt upp þar til það verður létt og ljóst. Þá er smjörið þeytt saman við kremið, þar til það er mjög ljóst og létt. Notað að vild, sem fylling í vatnsdeigsbollur eða annan bakstur.

Verði þér að góðu :-)

Frönsk klassík 😍